Góður árangur hjá ungu liði HSK á bikar- Hjálmar Vilhelm 28 cm frá lágmarki á EM-U18

Hjálmar Vilhelm með glæsilegt HSK met í flokki 16-17 ára og einungis 28cm frá EM-U18 lágmarki
Hjálmar Vilhelm með glæsilegt HSK met í flokki 16-17 ára og einungis 28cm frá EM-U18 lágmarki

Bikarkeppni FRÍ í flokki fullorðinna fór fram í Kaplakrika 17. mars.  HSK  sendi ungt lið til keppni sem stóð sig með stakri prýði og endaði í 5. sæti í stigakeppninni en það var lið FH sem sigraði keppnina örugglega.  Karlaliðið endaði í 4. sæti og kvennaliðið í 6. sæti.  

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson náði frábærum árangri þegar hann vann til silfurverðlauna í þrístökki með 13,82 m stökk, eingöngu 5 cm frá sigri og stórbætti sinn fyrrri árangur. Árangurinn er nýtt HSK met í flokki 16-17 ára en fyrra  metið sem var 13,60 m var 39 ára gamalt í eigu Jóns Arnars Magnússonar frænda Hjálmars Vilhelms. Árangurinn hjá Hjálmari Vilhelm er eingöngu 28 cm frá lágmarki á Evrópumeistaramót U18. Lágmörkum á EM-U18 þarf að ná fyrir 7. júlí 2024.

Örn Davíðsson kastaði kúlunni 14,53 m og fékk silfurverðlaun að launum og Ísold Assa Guðmundsdóttir stökk yfir 2.60 m og vann til bronsverðlauna. Boðhlaupssveit karla náði silfurverðlaunum í 4x200 m hlaupi á stórgóðum tíma 1:37,06. Sveitina skipuðu þeir Olgeir Otri Engilbertsson, Vésteinn Loftsson, Ívar Ylur Birkisson og  Hjálmar Vilhelm. Aðrir keppendur stóðu sig stórvel og skiluðu dýrmætum stigum í stigakeppni liðanna.