Hjálmar Vilhelm með glæsilega þraut á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Hjálmar Vilhelm á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson
Hjálmar Vilhelm á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

 Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Umf. Selfoss náði frábærum árangri í tugþraut á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem lauk í Skopje í Norður-Makedóníu á laugardaginn. Hjálmar hlaut 6.706 stig og endaði í 8. sæti meðal bestu tugþrautarstráka í Evrópu. Hann var aðeins 27 stigum frá Íslandsmeti sínu í flokki U18 pilta . Þeir tveir keppendur sem enduðu í tveimur efstu sætum keppninnar eru númer tvö og þrjú á heimslistanum U18 í tugþraut. Þetta var virkilega flott þraut hjá Hjálmari en hann bætti sinn besta árangur í fjórum greinum af tíu í þrautinni, 400m hlaupi, hástökki, stangarstökki og 110 m grindahlaupi. Hann  sigraði í tveimur greinum og var sem fyrr segir mjög nálægt sínum besta árangri í þraut. Hjálmar gerði þannig virkilega vel en aðstæður á frjálsíþróttavellum voru mjög krefjandi í 40-45°C hita báða keppnisdagana og því sannkallað þrekvirki hjá Hjálmari Vilhelm að ná að klára þrautina.

Hjálmar kastaði lengst allra  í kúluvarpi þegar hann varpaði kúlunni  15,83 m og var aðeins 6 cm frá sínum besta árangri. Hann átti síðan langlengsta kast allra keppenda í kringlukasti þegar hann kastaði  kringlunni 49,37 m, sem er hans næstbesta kast með 1,5 kg kringlu. Hann náði síðan frábærri bætingu í hástökki er hann vippaði sér yfir  1,97 m og setti nýtt HSK-met í flokki 16-17 ára pilta. Hann bætti 11 ára gamalt HSK met Styrmis Dan Steinunnarsonar, Umf. Þór, um einn sm. 

Bryndís Embla Einarsdóttir Umf Selfoss keppti í spjótkasti á mótinu og átti flotta frumraun á alþjóðlega keppnissviðinu. Hún kastaði 39,80 m og hafnaði í 14. sæti. Glæsilegt hjá þessum efnilega kastara.

Bryndís Embla á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson