HSK/Selfoss Bikarliðið á Sauðárkróki
Bikarkeppni FRÍ í fullorðinsflokki fór fram á Sauðárkróki dagana 5.-6.júlí síðastliðinn. HSK/Selfoss sendi ungt lið til keppni og uppskáru þau 5 sætið í heildarstigakeppninni. Lið HSK/Selfoss hlaut 110 stig en FH urðu Bikarmeistarar með 164 stig. Liðsmenn frjálsíþróttadeildar Selfoss stóðu sig mjög vel og urðu þeir Kristinn Þór Kristinsson og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson báðir Bikarmeistarar. Aðrir liðsmenn frjálsíþróttadeildar Selfoss stóðu sig mjög vel og höluðu inn dýrmæt stig.
Kristinn Þór Kristinsson varð Bikarmeistari í 1500m hlaupi á tímanum 4:01,31 mín. Hinn 17 ára gamli Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð Bikarmeistari í hástökki er hann vippaði sér yfir 1.94m og bætti sinn besta árangur. Hjálmar Vilhelm náði einnig frábærum árangri í kringlukasti er hann kastaði karlakringlunni 42,53m sem er einungis 1,59m frá 51 árs gömlu meti Þráins Hafsteinssonar. Anna Metta Óskarsdóttir náði öðru sæti í þrístökki þrátt fyrir ungan aldur þegar hún stökk 11,85m og setti HSK met í fjórum flokkum sem er frábærlega vel gert hjá henni. Í flokki 15 ára bætti hún eigið HSK met sem var 11,53m, í flokki 16-17 ára bætti hún met Ágústu Tryggvadóttur sem var 11,57m og í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára bætti hún met Bryndisar Evu Óskarsdóttur en metin voru bæði 11,64m. Þessi árangur Önnu Mettu er einungis 5 cm lakari en Íslandsmet Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur í 15 ára flokki. Eva María Baldursdóttir hoppaði yfir 1.73m í hástökki og lenti í öðru sæti eftir jafna keppni. Daníel Breki Elvarsson kastaði spjótinu 52,01m og endaði í 3.sæti, sama sæti og Hanna Dóra Höskuldsdóttir fékk í kringlukasti þegar hún þeytti henni 32,70m. Að lokum setti Kristján Kári Ólafsson enn eitt HSK metið í sleggjukasti í flokki 16-17 ára þegar hann kastaði karlasleggjunni 38,75m og bætti eigið met um 39cm. Kristján Kári varð í 6.sæti í sleggjukastinu.

Hjálmar Vilhelm varð Bikarmeistari í hástökki einungis 17 ára gamall

Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 1500m hlaupi og enn einu sinni vann hann Bikarmeistaratitil

Anna Metta setti HSK met í fjórum flokkum er hún náði þeim frábæra árangri að stökkva 11.85m í þrístökki