Prýðisárangur á MÍ fullorðinsflokki- Þorvaldur Gauti og Hjálmar Vilhelm með brons

Þorvaldur Gauti með tvö HSK met í 800m hlaupi
Þorvaldur Gauti með tvö HSK met í 800m hlaupi

Meistaramót Íslands, aðalhluti, fór fram í Reykjavík dagana 17.og 18.febrúar sl. Nokkrir keppendur Frjálsíþróttadeildar Selfoss kepptu og stóðu sig með mikilli prýði.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, 17 ára, stóð sig frábærlega þegar hann vann til bronsverðlauna í 800m hlaupi á tímanum 1:58,54 mín og fór í fyrsta sinn undir hinn langþráða 2 mínútna múr. Þessi árangur Þorvaldar Gauta er HSK met í flokkum 16-17 ára og 18-19 ára en hann átti sjálfur fyrri metin. Lágmark á Evrópumeistaramót U18 í sumar er 1:56,00 og því vel raunhæfur möguleiki að hann nái inn á Evrópumeistaramótið.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, 16 ára, stóð sig frábærlega þegar hann var hársbreidd frá þvi að vinna Íslandsmeistaratitilinn í hástökki er hann felldi naumlega 1,87m. Allir þrír efstu stukku yfir 1.82m og réði fjöldi tilrauna á hæðirnar úrslitum. Hjálmar Vilhelm endaði þvi í 3.sæti og vann til bronsverðlauna. Hann bætti einnig sinn besta árangur í 200m hlaupi er hann hljóp á 24,20 sek.

Ísold Assa Guðmundsdóttir, 17 ára, bætti sig í hástökki er hún vippaði sér yfir 1,65m og endaði í 4.sæti með sömu hæð og stúlkan í 3.sæti. Hún vippaði sér síðan yfir 2,42m í stangarstökki og endaði í 5.sæti.

Þær Hanna Dóra Höskuldsdóttir og Erlín Katla Hansdóttir komust upp úr undankeppninni í langstökki í úrslitin og höfnuðu þar í 11. og 12.sæti. Hanna Dóra stökk 4,80m og Erlín Katla 4,67m

Hjálmar Vilhelm á palli í hástökki

Þorvaldur Gauti  á palli fyrir 800m hlaup