Selfyssingar með yfirburðasigur á Héraðsmóti HSK

Sigurlið Selfoss á Héraðsmóti HSK
Sigurlið Selfoss á Héraðsmóti HSK

Héraðsmót HSK var haldið á Selfossvelli dagana 15. og 16. júlí við frábærar aðstæður. Selfyssingar mættu með öflugt lið til keppninnar og gjörsigruðu Héraðsmótið með 384 stig. Dímon varð í öðru sæti með 67 stig og Hekla í því þriðja með 33 stig. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson og Anna Metta Óskarsdóttir voru stigahæstu keppendur mótsins, Hjálmar Vilhelm halaði inn 24 stigum og Anna Metta krækti í 33 stig.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð fjórfaldur Héraðsmeistari. Hann sigraði í 100m hlaupi á tímanum 11,50 sek, stangarstökki með 3,35m, kúluvarpi með 12,08m og kringlukasti er hann þeytti kringlunni 42,62m. Anna Metta Óskarsdóttir varð þrefaldur Héraðsmeistari. Hún sigraði í 100m hlaupi á tímanum 13,09 sek sem er nýtt HSK met í flokki 15 ára stúlkna en fyrra metið var 13,11sek, sett árið 2017 af Bríeti Bragadóttur. Anna Metta sigraði einnig í þrístökki með 11,58m og í 1500m hlaupi á tímanum 6:02,34 mín. Daníel Breki Elvarsson varð tvöfaldur Héraðsmeistari en hann sigraði í spjótkasti með 48,34m og í 200m er hann hljóp á tímanum 23,95 sek. Daníel Smári Björnsson varð tvöfaldur Héraðsmeistari. Hann stökk lengst allra í þrístökki er hann stökk 11,59m og kom fyrstur í mark í 400m hlaupi á tímanum 61,86 sek. Hildur Helga Einarsdóttir varð tvöfaldur Hérðasmeistari í kastgreinum. Hún sigraði í kúluvarpi með 10,60m löngu kasti og einnig í sleggjukasti er hún þeytti henni 33,40m. Þórhildur Sara Jónasdóttir varð tvöfaldur Héraðsmeistari. Hún kom fyrst í mark bæði í 400m hlaupi á tímanum 62,31 sek og í 800m hlaupi á tímanum 2:35,70 mín. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson varð Hérasðmeistari í 800m hlaupi á tímanum 1.59,74 mín og Kristján Kári Ólafsson varð Héraðsmeistari í sleggjukasti með 36,61m. Arndís Eva Vigfúsdóttir varð Héraðsmeistari í kringlukasti með 31,17m og jafnaldra hennar Bryndis Embla Einarsdóttir varð Héraðsmeistari í spjótkasti með 38,00m. Hugrún Birna Hjaltadóttir varð Héraðsmeistari í 200m hlaupi á tímanum 28,36 sek og Ísold Assa Guðmundsdóttir varð Héraðsmeistari í stangarstökki er hún vippaði sér yfir 2,55m.

Anna Metta Óskarsdóttir og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson voru stigahæst á Héraðsmóti HSK

Þrefaldur sigur Selfoss í spjótkasti kvenna,  Dagmar Sif Morthens, Bryndís Embla Einarsdóttir og Ásta Kristín Ólafsdóttir