Sex HSK met sett á Vormóti ÍR

Bryndís Embla er feiknalega efnilegur spjótkastari
Bryndís Embla er feiknalega efnilegur spjótkastari

Sex HSK met voru sett á Vormóti ÍR sem haldið var á ÍR-vellinum í Breiðholti þann 29/5 sl.

Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í spjótkasti í kvennaflokki en hún er einungis 15 ára gömul. Hún setti fjögur héraðsmet í spjótkasti með 600 gr spjóti og bætti sín eigin met í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Bryndís Embla kastaði 42,03 m og bætti sinn besta árangur um 83 sm. Íslandsmetið í spjótkasti í 15 ára flokki með 600gr spjóti er 44,20m svo miklar líkur eru á að Bryndísi Emblu takist að slá það í sumar.  Kastið hennar Bryndísar Emblu var jafnframt Selfossmet í kvennaflokki en hún átti sjálf fyrra metið

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, varð annar í 800 m hlaupi í karlaflokki á nýju HSK-meti en hann bætti eigið met í þessari vegalengd í flokki 16-17 ára, hljóp á 1:58,40 mín og bætti sig um 1,66 sekúndur. Lágmarkið á Evrópumeistararmótið (U18) er 1:56,00 sem er rúmum 2 sekúndum betri tími en árangur Þorvaldar Gauta. 

Þá setti Andri Már Óskarsson, Umf. Selfoss, héraðsmet í 3.000 m hlaupi í flokki 11 ára pilta, hljóp á 12:41,59 mín en enginn 11 ára Sunnlendingur átti skráðan árangur í þessari grein. Andri Már hlaut bronsverðlaun fyrir hlaupið.

Daníel Breki Elvarsson krækti sér í silfur í karlaflokki er hann kastaði spjótinu 53,26m.  Anna Metta Óskarsdóttir vippaði sér yfir 1.55m í hástökki og krækti sér í bronsverðlaun  og náði um leið inn í Úrvalshóps FRÍ.  Tólf  keppendur frjálsíþrótttadeildar Selfoss eru í Úrvalshópnum sem skipaður er efnilegustu unglingum landsins og er það frábær árangur því viðmið í hópinn eru nokkuð ströng. Anna Metta varð einnig  í 2.sæti í langstökki í flokki 14 ára með 4,82m og í 3.sæti í 100m hlaupi í sama flokki á timanum 13,51 sek.  Að lokum vann Ísold Assa Guðmundsdóttir til bronsverðlauna í spjótkasti í flokki 17 ára er hún kastaði spjótinu 30,70m.