3. flokkur úr leik í bikar

3. flokkur karla mætti Haukum í Strandgötu í gær. Þrátt fyrir að Selfyssingar hafi verið betri í leiknum og verðskuldað sigur voru það heimamenn í Haukum sem sigruðu með einu marki 23-22 eftir að hafa gert seinustu 2 mörk leiksins á 16 sekúndna kafla undir lok leiks. Strákarnir gáfu allt sem þeir þurftu til að fá sigur úr þessum leik en því miður er þetta stundum svona.

Leikurinn byrjaði ekki gæfulega fyrir okkar menn sem voru 2-0 undir eftir 11 mínútur. Komst þá sóknarleikurinn í gang, þar kom mun meiri hraði og fóru okkar menn að skora. Selfyssingar voru skrefinu á undan seinni hluta fyrri hálfleiks og m.a. komnir 7-10 yfir. Haukamenn skora hins vegar 2 mörk undir blálok hálfleiksins og 9-10 í hálfleik. Magnaður varnarleikur og frábær markvarsla hafði búið þetta forskot til.

Í síðari hálfleik voru Selfyssingar afar öryggir í sínum aðgerðum. Þeir voru á undan nær allan hálfleikinn og létu lítið á sig fá hvað gerðist á vellinum. Til marks um það komust Haukamenn yfir í 18-17 og gerðu Selfyssingar þá bara strax næstu tvö mörk og aftur komnir með forystuna. Voru þeir með hana allt til enda og með boltann í stöðunni 21-22 og 50 sekúndur eftir. Gerðist þá eitthvað sem mun væntanlega sitja í okkar mönnum lengi. Haukarnir komast í sókn og jafna þegar 16 sekúndur voru eftir. Selfyssingar freista þess að vinna leikinn með því að keyra upp. Missa þeir boltann, Haukamaður kemst einn í hraðaupphlaup og skorar sigurmarkið þegar 2 sekúndur voru til leiksloka.

Þetta tap var líklega eins grátlegt og það verður, sér í lagi þar sem Selfyssingar voru með yfirhöndina allan leikinn. Þetta snýst um þessar seinustu mínútur. Eins og sagt var eitt sinn þá ræðst hver leikur á ca. 4-5 atvikum í hverjum leik, ekki  meira en það. Í þessum leik voru þau líklega færri en það. Þrátt fyrir að hafa tapað þessum leik sýndu Selfyssingar það í þessum leik hve gott lið þeir eru orðnir og hve mikið þeir hafa bætt sig. Þetta lið hefur lært gífurlega mikið í vetur og tekið miklum framförum. Það vantar þessa hársbreidd upp á til að klára leiki eins og þennan.

Á svona stundu spyrja menn sig örugglega, af hverju er ég eiginlega að þessu öllu ef ég fæ ekkert út úr því að leggja þetta mikið á mig? E.t.v. er erfitt að finna svör sem svara því almennilega. Líklega er það samt af því að okkur finnst þetta ógeðslega gaman, af því að okkur er ekki sama um það sem við erum að gera og af því að við við viiljum leggja okkur alla í það og leggja allt undir. Stundum getur þetta farið svona en við lögðum okkur þó alla vega fram. Þetta snýst um að standa aftur upp, koma reynslunni ríkari næst og gera þá enn betur.

Áfram Selfoss