4. flokkur vann KA

Strákarnir í 4. flokki unnu góðan heimasigur á KA-mönnum í gærkvöldi 38-27. Norðanmenn leiddu framan af leik en um miðjan fyrri hálfleik náðu Selfyssingar tökum á leiknum og stjórnuðu honum alfarið eftir það. Gaman var að sjá að það sem liðið æfði og lagði áherslu á í vikunni skilaði sér svo um munaði í leiknum.

KA-menn voru mun öflugri í byrjun leiks og Selfyssingar nokkra stund í gang. Gestirnir voru 7-12 yfir eftir 11 mínútna leik. Í þeirri stöðu tóku leikmenn Selfoss magnaða ákvörðun – að halda áfram að spila sinn leik og breyta ekki útaf leikskipulaginu þrátt fyrir að vera 5 mörkum undir. Það gerði það að verkum að Selfoss náði algjörlega að snúa leiknum við. Varnarleikurinn kom inn um miðjan fyrri hálfleik og fékk liðið mörg hraðaupphlaup út frá honum. Í síðari hálfleik var ekki aftur snúið og jók Selfoss jafnt og þétt við muninn og sigraði sem áður segir 38-27.

Vörnin hjá Selfoss liðinu var nokrka stund að virka en með góðri samvinnu náðu menn á endanum að finna taktinn. Óhætt er að segja að varnarleikurinn hafi skilað liðinu miklu í leiknum og gaf hann góð fyrirheit upp á framhaldið. Í sókninni spilaði Selfoss upp á mjög góð færi og sýnir 70% skotnýting liðsins í leiknum hversu góðar opnanir liðið var að fá. Alls skoruðu 7 leikmenn þrjú eða fleiri mörk í leiknum og munar um það. Þá er það gleðiefni að liðið hafi reynt að spila sinn bolta heilan leik í þetta skiptið.

Um næstu helgi fer Selfoss liðið í skemmtilega ferð til Akureyrar þar sem þeir mæta aftur KA-mönnum. Þar mun 2. flokkur karla, 3. flokkur karla og 4. flokkur karla hjá Selfossi fara saman norður og er markmiðið að skapa þar mikla Selfoss stemmningu og ná góðum úrslitum.