97 sigraði í Vesturbænum

Selfoss-97 mætti KR um helgina í 4. flokki karla. Eftir rólega byrjun seig Selfoss fram úr KR-ingum og vann að lokum 27-29 sigur.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur en Sefyssingar sem voru algjörlega á hælunum varnarlega. Það sést vel á að eftir tæpar 11 mínútur var staðan orðin 9-6 fyrir KR. Hresstust Selfyssingar þá við og jöfnuðu í 9-9. Stuttu eftir það náði Selfoss að komast yfir og staðan 16-17 í hálfleik.

Góður varnarkafli í byrjun síðari hálfleiks bjó til gott forskot fyrir Selfoss og leiddi liðið 21-26 þegar rúmlega 7 mínútur voru eftir. KR gafst ekki upp og saxaði á muninn. Selfyssingar voru hins vegar sterkari undir lokin og sigruðu 27-29.

KR-ingar brugðu á það ráð að taka Ómar Inga úr umferð strax frá fyrstu sekúndu. Margir hefðu stressast upp við það en Selfyssingar gerðu nákvæmlega það sem á að gera í  slíkri stöðu. Aðrir leikmenn stigu upp í bland við það að koma Ómari inn í leikinn. Til að mynda skoruðu alls 7 leikmenn í fyrri hálfleik og er mjög erfitt að ætla að taka leikmann sérstaklega út þegar allir hinir taka ábyrgð og nýta sér plássið sem skapast við það.

Vel útfærður sóknarleikur auk fíns varnarkafla í síðari hálfleik var það sem skilaði liðinu sigri á útivelli að þessu sinni.