Æfingagjöld eiga að vera lág

Eins og frá var greint í seinustu viku kemur fram í verðlagseftirliti ASÍ tók saman að ódýrast er að æfa handbolta og fimleika hjá Umf. Selfoss þegar borin eru saman fjölmennustu íþróttafélög landsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Einari Guðmundssyni yfirþjálfara handknattleiksdeildar hafa æfingagjöld staðið í stað sl. 7 ár þ.e. 3.000 kr. fyrir þrjár æfingar á viku hjá 12 ára og yngri, 4.000 kr. fyrir fjórar æfingar á viku hjá 13-14 ára og 5000 kr. fyrir fimm skipti á viku hjá 15-16 ára.  Að auki gefa foreldrar fengið rúmlega 1.000 kr. niðurgreiðslu á mánuði frá sveitarfélaginu Árborg.

„Okkur finnst mjög mikilvægt að hafa æfingagjöldin lág þannig að allir sem vilji geti stundað íþróttina“ sagði Einar. Æfingagjöld fara eingöngu í rekstur yngri flokka og þannig á það að vera. Iðkendum hefur fjölgað mjög mikið síðustu ár og tekjur af æfinggjöldum þ.a.l. aukist.

Handknattleiksdeildin heldur gríðarstórt handboltamót fyrir 7. flokk stráka og stelpna í apríl ár hvert sem skilar góðum tekjum í yngri flokka starfið. Þá hefur verið mikil stöðugleiki í þjálfaramálum, stefnu og stjórn yngri flokkanna undanfarin ár og er Selfoss eitt af allra fremstu félögum hvað varðar iðkendur, árangur og fjölda unglingalandsliðsmanna.

„Það sem helst háir okkur er skortur á æfingatímum við getum ekki boðið öllum aldurhópum sem við vildum upp á æfingar því við höfum þörf fyrir fleiri æfingatíma“ sagði Einar að lokum.