Ágústa Tanja framlengir

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir hefur framlengt samning sinn við handknattleiksdeild Selfoss til ársins 2028. Tanja, sem verður 19 ára í haust, er mjög efnilegur markvörður sem leikið hefur með meistaraflokki í þrjú tímabil og tekið miklum framförum á þeim tíma. Tanja hefur verið í yngri landsliðum kvenna ásamt því að vera kölluð inn á æfingar á A-landsliði kvenna síðasta vetur.

Síðasta vetur lék Tanja stórt hlutverk hjá meistaraflokki og varði 187 skot í 24 leikjum með meðaltals markvörslu upp á 32,1%. Handknattleiksdeildin fagnar mjög þessum nýja samningi og erum spennt að sjá Tönju vaxa og dafna áfram í Selfoss treyjunni næstu árin.