Allyson Haran í Selfoss

ally_haran-minni260418gk
ally_haran-minni260418gk

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við bandaríska varnarmanninn Allyson Haran og mun hún spila með félaginu í Pepsi-deild kvenna í sumar.

Haran, sem er 22 ára gömul, kemur til Selfoss úr bandaríska háskólaboltanum en hún var fyrirliði í sterku liði Wake Forest háskólans. Haran fór í nýliðavalið í bandarísku atvinnumannadeildinni í vetur og var valin með 25. valrétti af liði Seattle Reign. Hún komst hins vegar ekki í endanlegan leikmannahóp liðsins og kaus í kjölfarið að hefja atvinnumannaferilinn á Íslandi.

„Ally kemur til okkar úr mjög góðu háskólaliði þar sem hún náði eftirtektarverðum árangri sem leikmaður. Hún er góð á boltannn og sterk í loftinu og á eftir að passa vel inn í varnarlínuna okkar. Hún er líka góður karakter og mun hjálpa yngri stelpunum okkar til að þróast enn frekar sem leikmenn,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Selfyssingar hefja leik í Pepsi-deild kvenna föstudaginn 4. maí þegar liðið heimsækir Val að Hlíðarenda.

Allyson Haran og Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, við undirritun samningsins. Ljósmynd/UMFS