Bæði liðin í 4. flokki unnu Val

1997 og 1998 liðin í 4. flokki karla unnu Val á Hlíðarenda um helgina. 97 liðið vann afar sannfærandi sigur 20-28 eftir að hafa verið 7-15 yfir í hálfleik. 98 liðið hins vegar vann mikinn baráttusigur 18-21 en liðið var fjórum mörkum undir í hálfleik.

Jafnræði var framan af í 97 og Valsarar yfir 6-4 eftir um 9 mínútna leik. Fór Selfoss liðið þá í gang svo um munaði. Varnarleikurinn small saman og vann Selfoss næstu 16 mínútur 1-11. Staðan því 7-15 í hálfleik. Mjög öflugur varnarleikur gerði útslagið í þessum hálfleik og í raun vann leikinn fyrir Selfyssinga. Seinni hálfleikur hélst jafn og lokatölur 20-28.

Sterk liðsheild og framlag frá fjölda leikmanna í sókn gerði Völsurum afar erfitt fyrir að stoppa okkar menn. Það er síðan að verða alveg ljóst að þegar Selfoss nær upp vörninni sinni sem og hraðaupphlaupunum eins og það náði að gera í fyrri hálfleik eru fá lið sem standast þeim snúning.

98 liðið lék alls ekki vel í fyrri hálfleik og leiddu Valsarar allan hálfleikinn. Í vörninni voru leikmenn úr stöðum og fengu Valsarar mjög auðveld mörk og í sókninni var hraðinn hrikalega lítill. Þetta allt saman löguðu strákarnir í síðari hálfleik. Þeir fóru úr 13-9 (hálfleikstölur) í að vinna 18-21 sigur. Hreint magnaður viðsnúningur og gaman að sjá strákana sýna þann karakter að ná að taka sig algjörlega í gegn í hálfleiknum.

5 mörk á sig í seinni hálfleik segja alla söguna um hversu öflug vörnin og markvarslan var í þeim hálfleik. Þetta er þriðji sigurleikur liðsins í vetur og liðið að bæta sig jafnt og þétt. Strákarnir þurfa að halda áfram á þessari braut en með frammistöðu og hugarfari eins og í seinni hálfleik í þessum leik er liðið til alls líklegt.