Besti árangur Selfoss frá upphafi

Mfl. kvk. 2015
Mfl. kvk. 2015

Stelpurnar okkar luku leik í Pepsi deildinni um helgina þegar þær tóku á móti Þór/KA í hreinum úrslitaleik um þriðja sæti deildarinnar. Leikurinn stóðst björtustu vonir áhorfenda sem fjölmenntu á leikinn til að þakka stelpunum fyrir frábæra skemmtun og spennu í sumar.

Það var Dagný Brynjarsdóttir sem skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Selfoss á 10. mínútu og héldu þá margir að björninn væri unnin en svo var öðru nær. Norðankonur blæsu til stórsóknar og þrátt fyrir blíðuveður vissu heimakonur varla hvaðan á þær stóð veðrið. Eitthvað varð undan að láta og jöfnunarmarkið leit dagsins ljós á 30. mínútu og máttu Selfyssingar þakka fyrir að halda jöfnu fram að hálfleik.

Þrátt fyrir gott te í hálfleik hélt pressa Þórs/KA áfram sem endaði með marki á 65. mínútu. Þá loksins hresstist Eyjólfur og stelpurnar okkar höfðu slíka yfirburði á vellinum seinustu tuttugu mínútur leiksins að andstæðingnum var vorkunn.

Donna-Kay Henry jafnaði fyrir Selfoss á 75. mínútu og það var svo Guðmunda Brynja Óladóttir sem fór fyrir sínu liði og tryggði sigur Selfoss með tveimur mörkum á lokamínútum leiksins.

Lokastaðan 4-2 fyrir Selfoss sem endaði í þriðja sæti með 36 stig á eftir Breiðablik og Stjörnunni. Þetta er besti árangur liðsins frá upphafi og svo sannarlega eru stelpurnar stolt sunnlenskrar knattspyrnu.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

---

Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu 2015.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Guðmundur Karl