Blandað lið Selfoss hársbreidd frá deildarmeistaratitli

Undankeppni Íslandsmótsins í hópfimleikum fóru fram í húsakynnum Gerplu föstudaginn 30. mars. Selfoss sendi tvö lið til keppni en það voru lið Selfoss HM1, sem keppir í kvennaflokki, og lið Selfoss HM4, sem keppir í flokki blandaðra liða. Skemmst er frá því að segja að bæði lið tryggðu sér þátttökurétt í úrslitum sem fram fara föstudaginn 13. apríl og laugardaginn 14. apríl í Ásgarði í Garðabæ. 

Á mótinu á föstudag voru deildarmeistarar 1. flokks krýndir bæði í kvennaflokki og í flokki blandaðra liða. Lið Selfoss HM4 átti möguleika á deildarmeistaratitli fyrir mótið en til þess þurftu þau að sigra mótið. Lið Gerplu hefur unnið síðustu tvö mót en Selfoss vann haustmótið og gat því jafnað á mótinu á föstudag. Krakkarnir í mixliði Selfoss áttu besta keppnisdaginn sinn á öllu tímabilinu og þau gerðu sér lítið fyrir og sigruðu lið Gerplu og því stóðu stigin jöfn í deildarkeppninni en bæði lið voru þá með 19 stig. Þegar jafnt er á milli liða í deildarkeppni þarf að skera öðruvísi úr um sigurvegara og í þessu tilfelli þurfti að telja innbyriðis sigra á áhöldum í vetur. Það var lið Gerplu sem hafði betur í þeirri baráttu og voru því krýndir deildarmeistarar. 

Meistarahópur Selfoss tefldi fram breyttu liði frá Bikarmótinu um daginn en í liðið vantaði þrjár stelpur frá síðasta móti en þær voru allar erlendis. Á síðasta mót komu Helga Hjartardóttir og Jóhanna Runólfsdóttir heim til að keppa með liðinu og svo var Ágústa Gísladóttir í skólaferð erlendis. Í þeirra stað fengu aðrar að spreyta sig en það voru m.a. nýbökuðu mæðurnar í liðinu þær Arna Hjartardóttir og Linda Ósk Þorvaldsdóttir. Linda var að keppa á sínu fyrsta móti eftir EM 2010, en Arna keppti síðast með liðinu í úrslitakeppni Íslandsmótsins 2011 eða fyrir ári síðan.  

Úrslitin fara fram eins og áður segir í húsakynnum Stjörnunnar í Ásgarði 13. og 14. apríl. Á föstudeginum fara fram úrslit í fjölþraut en á laugardeginum fara fram úrslit á einstökum áhöldum. Selfossliðin mæta þar sterk til leiks en þá mun Jóhanna Runólfsdóttir fljúga aftur heim til að keppa með liði sínu og Ágústa Gísladóttir verður þá einnig með liðinu. Lið Selfoss í flokki blandaðra liða munu einnig koma ákveðin til leiks í úrslitakeppnina.