Naumt tap við erfiðar veðuraðstæður

Byrjunarlið gærkvöldsins
Byrjunarlið gærkvöldsins

Veðrið á Seltjarnarnesi var ekki til þess að hrópa húrra fyrir þegar Selfoss mætti Gróttu í níundu umferð Lengjudeildarinnar, slíkur var vindurinn. Selfyssingar spiluðu á móti vindi í fyrri hálfleik með tilheyrandi vandræðum. Heimamenn héldu, eins og gefur að skilja meira í boltann, en Selfyssingar vörðust að mestu leyti mjög vel, héldu leikskipulagi og áttu nokkrar góðar sóknir sem hefðu hæglega getað endað með marki. 

Heimamenn komust yfir eftir rúmlega hálftíma leik þegar boltinn barst inn á vítateig Selfyssinga eftir aukaspyrnu, leikmaður Gróttu skallaði boltann í átt að marki, Stefán varði en boltinn fór þaðan af Adrian og í markið. Afskaplega óheppilegt og ekki fallegasta mark sumarsins en það taldi. 1-0 í hálfleik. 

Þór Llorens fékk að líta rautt spjald á 70. mínútu leiksins og við það þyngdist róðurinn til muna. Selfyssingar náðu ekki að nýta sér hagstæða vindátt í síðari hálfleik og lauk leiknum með 1-0 sigri Gróttu. 

Nú tekur við rúmlega tveggja vikna pása frá Lengjudeildinni en næsti mótsleikur er sunnudaginn 16.júlí gegn Leikni á heimavelli. Fyrirhugað er að Selfoss leiki einn æfingaleik í pásunni en upplýsingar um það munu liggja fyrir síðar. 

ÁFRAM SELFOSS!