Erfitt verkefni bíður strákanna

Einar Sverrisson vs Dragunas
Einar Sverrisson vs Dragunas

Selfoss tapaði með sjö mörkum gegn pólska liðinu Azoty-Puławy í fyrri umferð 3. umferðar Evrópukeppni félagsliða í kvöld, 33-26.

Selfoss byrjaði illa í leiknum og Pólverjarnir voru fljótlega komnir með fimm marka forskot. Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í eitt mark undir lok fyrri hálfleiks en staðan var 16-14 í leikhléi.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og juku forskotið í sjö mörk. Strákarnir sáu aldrei til sólar eftir það, munurinn varð mestur níu mörk en Selfoss náði þó að klóra í bakkann í lokin.

Ekki er þó öll nótt úti enn, þetta var aðeins fyrri hálfleikur liðanna, en þau mætast aftur í Hleðsluhöllinni eftir viku, laugardaginn 24. nóvember kl 18:00. Það er ljóst að það er erfitt en ekki óyfirstíganlegt verkefni fyrir höndum hjá strákunum.

Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 8, Atli Ævar Ingólfsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Elvar Örn Jónsson 3, Haukur Þrastarson 3.

Varin skot: Pawel Kiepulski varði vel í marki Selfoss

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is og Mbl.is

Næsta verkefni hjá strákunum er heimaleikur gegn Fram í Olísdeildinni á miðvikudaginn n.k. Síðan er seinni leikur liðsins gegn Azoty-Puławy hér heima eftir viku eins og áður sagði.
____________________________________

Mynd: Einar Sverrisson var markahæstur með 8 mörk.

Umf. Selfoss / JÁE