Fjóla Signý þriðja í Stokkhólmi

fjola_signi_feb2013
fjola_signi_feb2013

Fjóla Signý Hannesdóttir tók þátt í frjálsíþróttamótinu Raka Spåret i Stokkhólm um helgina. Fjóla Signý keppti í 60 m hlaupi og 400 m hlaupi. Hún náði sér ekki á strik í 60 m en vann sinn riðil í 400 m og endaði í 3. sæti á tímanum 57,55 sek sem er ekki langt frá hennar besta. Þetta var hennar fyrsta 400 m hlaup á árinu. Íslensku keppendurnir á mótinu voru auk Fjólu, Hafdís Sigurðardóttir, Trausti Stefánsson og Stefanía Hákonardóttir. Öll kepptu þau í 400 m hlaupi. Hafdís vann til verðlauna í langstökki og 400 m. Hún sigraði 400 m hlaupið á 55,89 sek sem er persónuleg bæting hjá henni. Einnig sigraði hún langstökkið eftir spennandi keppni. Fyrir síðustu umferð var Hafdís í 2. sæti með 6,04 m, 1 cm frá 1. sætinu, en í lokaumferðinni náði hún sigurstökkinu upp á 6,11 m sem er hennar besta á árinu. Hafdís keppti einnig í 60 m hlaupi, þar sem hún komst í úrslit og endaði í 5. sæti.  Trausti hljóp á 48,63 og endaði í 2. sæti. Stefanía náði sér ekki á strik í 400 m hlaupinu.

-ög