Fjóla Signý þrefaldur Íslandsmeistari

Helgina 14.-15. júlí s.l. fór fram á Laugardalsvellinum aðalhluti Meistaramóts Íslands í frjálsíþróttum. HSK/Selfoss sendi vaska sveit til keppni sem taldi 20 manns og stóð sveitin sig mjög vel. Uppskera helgarinnar var 4 gull, 5 silfur og 5 brons. Liðið hafnaði í þriðja sæti í karla- og kvennakeppninni. Liðið varð í þriðja sæti í heildarstigakeppni mótstins á eftir FH og ÍR sem sigraði.

Fjóla Signý vann þrjá Íslandsmeistaratitla
Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi var að öðrum ólöstuðum maður liðsins og ein af tveimur keppendum mótsins sem vann þrjá Íslandsmeistaratitla. Fjóla byrjaði á því að sigra örugglega í 100 m grindahlaupi og jafna HSK-metið er hún hljóp á 14,47 sek. Í þessu hlaupi bætti Eva Lind Elíasdóttir Þór sig verulega er hún varð fjórða á 15,60 sek. Fjóla Signý hóf seinni daginn á því að sigra með sömu yfirburðum í 400 m grindahlaupi á nýju HSK-meti 59,62 sek. Hún náði jafnframt að rjúfa 60 sekúndna múrinn í fyrsta sinn. Fjóla Signý fór svo beint í hástökkið þar sem hún sigraði með 1,66 m og var hársbreidd frá því að bæta sig utanhúss og fara 1,69 m. Fjóla Signý var í silfursveit HSK/Selfoss í 4x400 m boðhlaupi en sveitin hljóp á 4:07,07 mín. Með henni í sveitinni voru Sólveig Helga Guðjónsdóttir Selfossi, Agnes Erlingsdóttir Laugdælum og Eva Lind Elíasdóttir Þór.

Kristinn Þór Íslandsmeistari í 800 m hlaupi
Kristinn Þór Kristinsson Samhygð er í fantaformi þessa dagana og fylgdi eftir góðum árangri sínum í 800 m hlaupi á Gautaborgarleikunum á dögunum með því að sigra það hlaup með yfirburðum á 1:55,15 mín og ná þriðja besta tími sínum frá upphafi. Kristinn bætti sig svo um hálfa sekúndu í 400 m hlaupi þar sem hann varð fjórði á 50,76 sek.

Fimm silfur og fimm brons
Vigdís Guðjónsdóttir Skeiðamönnum tók silfur af gömlum vana í spjótkasti kvenna og kastaði 42,11 m sem er besti árangur hennar á árinu. Þá varð Agnes Erlingsdóttir Laugdælum í öðru sæti í 400 m hlaupi á 58,33 sek. Hún átti áður 58,60 sek frá Gautaborgarleikunum um sl. helgi. Agnes bætti sig svo um heila sekúndu í 200 m hlaupi er hún hljóp á 26,53 sek. Hreinn Heiðar Jóhannsson Laugdælum var

ð annar í hástökki með 1,90 m. Hann varð síðan fimmti í langstökki með 6,38 m. Í þrístökki karla vann Bjarni Már Ólafsson Vöku silfur með 14,06 m stökki og var aðeins 2 cm frá gullinu. Í 110 m grindahlaupi varð Ólafur Guðmundsson Laugdælum þriðji og náði besta tíma sínum á árinu, 16,23 sek. Ólafur varð einnig þriðji í kringlukasti með 38,30 m. Dagur Fannar Magnússon Selfoss stóð fyrir sínu í sleggjukastinu og var stutt frá sínu besta með kast upp á 45,82 m og hafnaði í þriðja sæti. Í kúluvarpi kvenna átti HSK/Selfoss sjö keppendur af tólf en reynsluboltinn Ágústa Tryggvadóttir Selfoss nældi sér í brons með því að varpa 10,94 m. Eva Lind Elíasdóttir Þór var rétt á eftir með 10,86 m. Haraldur Einarsson Vöku átti gott mót í spretthlaupunum þó ekki næði hann á verðlaunapall. Hann komst í úrslit í 100 og 200 m hlaupi. Í 100 m hlaupi bætti hann sig úr 11,31 sek í 11,23 sek og í 200 m hlaupinu fór hann vegalengdina á 22,69 sek. en átti áður 22,92 sek. Í 4x100 m boðhlaupi karla varð HSK/Selfoss í þriðja sæti á ágætum tíma, 44,74 sek. Sveitina skipuðu: Hreinn Heiðar, Haraldur, Ólafur og Kristinn Þór.

Að lokum má geta þess að Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir Suðra, sem er nýkominn heim frá EM fatlaðra í frjálsíþróttum, keppti í kúlu og kringlu á Meistaramótinu. Hún sló ekki slöku við heldur setti Íslandsmet í kringlukasti í sínum fötlunarflokki er hún þeytti kringlunni 22,92 m. Frábært hjá henni.

-óg/ög