Grímur og Úlfur frábærir, en Egill stal senunni

Vormót Júdósambands Íslands var haldið laugardaginn 21. apríl s.l. hjá Júdofélagi Reykjavíkur í Ármúla 17a. Mjög góð þátttaka var í mótinu og fjöldi áhorfenda. Fimm keppendur frá júdódeild Umf. Selfoss tóku þátt í mótinu, þeir Egill Blöndal, Grímur Ívarsson, Úlfur Böðvarsson, Halldór Ingvar Bjarnason, Hrafn Arnarsson og Bjartþór Böðvarsson. Árangur keppenda var góður.

Grímur Ívarsson vann sinn þyngdarflokk eftir hörku skemmtilega úrslitaviðureign við félaga sinn Úlf Böðvarsson sem lenti í öðru sæti. Grímur var í miklum ham og vann allar sínar glímur með nokkrum yfirburðum. Sama má segja um Úlf sem vann allar viðureignir nema úrslitaglímuna við Grím. Allar gímurnar hjá þeim báðum unnust með glæsilegum tilþrifum. Sannarlega góður dagur hjá þeim félögum. Skemmtilegt var fyrir Grím að á mótinu var afi hans Gísli Þorsteinsson, einn af bestu júdómönnum landsins fyrr og síðar og margfaldur meistari. Var ekki annað að sjá en að Gísli væri stoltur af sínum manni. Þá náði Halldór Ingi Bjarnason öðru sæti í sínum þyngdaflokki ogBjarþór Böðvarsson þriðja sæti. Stóðu þeir félagar sig vel að vanda.

Þrátt fyrir glæstan árangur yngri keppendanna þá stal Egill Blöndal senunni og vann sinn flokk með stæl. Til úrslita kepptu Egill Blöndal, Roman Rumba og Logi Haraldsson, allt frábærir keppnismenn og allir í hópi bestu júdómanna landsins. Egill var búinn að vinna allar viðureignir sínar þennan daginn með nokkrum yfirburðum og var yfir á móti Roman í lokaviðureigninni. Hann misskildi stigatöfluna og hélt að hann væri undir þegar 10 sek voru eftir af viðureigninni og tók mikla áhættu sem varð til þess að Roman tókst að knýja fram sigur á síðustu sekúndunni, en Roman er gríðarlega sterkur júdómaður. Þetta varð til þess að þessir keppendur voru allir jafnir að stigum og urðu að keppa aftur um sætin þrjú. Roman og Egill unnu báðir Loga á fullnaðarsigri.

Lokaviðureign Egils og Romans var jöfn og skemmtileg og vann Egill hana á dómaraúrskurði eftir framlenginu. Roman gat verið ánægður með daginn eins og Egill, enda „topmenn á ferð".
-gs/ög

Efri mynd: Úlfur Böðvarsson, Grímur Ívarsson og Gísli Þorsteinsson, afi Gríms. 
Neðri mynd: Roman Rumba, Egill Blöndal og Logi Haraldsson.