Hekla Björt íþróttamaður Hveragerðis

hekla-bjort-ithrottamadur-hveragerdis
hekla-bjort-ithrottamadur-hveragerdis

Fimleikakonan Hekla Björt Birkisdóttir sem keppir með Umf. Selfoss var kjörin íþróttamaður ársins í Hveragerði árið 2016 í hófi menningar, íþrótta- og frístundanefndar Hveragerðis í síðustu viku. Frá þessu er greint á vef Sunnlenska.is.

Hekla Björt varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari í fullorðinsflokki í hópfimleikum, með blönduðu liði Selfoss. Hún var einnig valin í ungmennalandslið Íslands sem keppti í blönduðum flokki í hópfimleikum á Evrópumótinu í Slóveníu og þar sem liðið lenti í þriðja sæti. Hún var lykilmaður í liði Íslands og keppti á öllum áhöldum.

Hekla Björt hefur stundað fimleika hjá fimleikadeild Selfoss í nokkur ár, en áður var hún í fimleikadeild Hamars. Hekla Björt hefur tekið miklum framförum í greininni síðustu ár og er orðin ein af fremstu fimleikakonum landsins.

Fimmtán íþróttamenn voru heiðraðir á hófinu og voru í kjöri til íþróttamanns ársins og þeirra á meðal var Kristrún Rut Antonsdóttir knattspyrnukona úr Umf. Selfoss.