Hrafn og Sara efnilegust

Júdó - Hrafn Arnarsson
Júdó - Hrafn Arnarsson

Sara Nugig Ingólfsdóttir og Hrafn Arnarsson úr júdódeild Umf. Selfoss eru efnilegasta júdófólk ársins 2020. Þetta var tilkynnt á lokahófi Júdósambands Íslands sem var haldið á laugardag. Á lokahófinu voru útnefnd júdókarl og júdókona ársins 2020 ásamt því að efnalegasta júdófólk ársins hlutu viðurkenningar.

Stjórn JSÍ ákvað að útnefna skildi júdófólk ársins þrátt fyrir að keppnisárið hafi verið með óvenjulegasta móti og tækifæri sem gáfust til að skara fram úr hafi verið færri en ella. Jafnframt þótti mikilvægt að heiðra þau afrek sem unnust á árinu þar sem aðstæður voru með eindæmum erfiðar.

Efnilegasta júdófólk ársins 2020

Daniele Kucyte úr Júdófélagi Reykjavíkur, sem keppti í -70 kg þyngdarflokki, og Sara Nugig Ingólfsdóttir, sem keppti í -57 kg flokki, úr Júdódeild Selfoss voru útnefndar efnilegustu júdókonur ársins 2020. Hrafn Arnarson, Júdódeild Selfoss sem keppti í ýmist í -90 kg flokki eða -100 kg og Andri Fannar Ævarsson sem keppti í -90 kg flokki voru útnefndir efnilegustu júdókarlar ársins 2020.

Júdókarl ársins 2020

Sveinbjörn Jun Iura úr Júdódeild Ármanns, sem keppir í -81 kg flokki, var valinn júdomaður ársins 2020. Er það í fjórða skipti og það þriðja í röð sem hann verður fyrir valinu. Hann komst í þriðju umferð á Grand Slam Dusseldorf og endaði þar með í 9.-16. sæti af 64 keppendum. Sveinbjörn er stigahæstur allra Íslendinga á heimslista Alþjóða Júdósambandsins en hann situr um þessar mundir í 69. sæti -81 kg flokksins.

Júdókona ársins 2020

Ingunn Rut Sigurðardóttir úr Júdófélagi Reykjavíkur, sem keppir í -70 kg flokki, var valin júdókona ársins 2020 og er það í annað skiptið sem hún hlýtur þann heiður. Hennar helsti árangur á árinu er fyrsta sæti á Reykjavík Judo Open sem er opið alþjóðlegt mót. En Ingunn sigraði fjórar viðureignir af fjórum allar á ippon á leið sinni að gullinu.

Frétt af vef JSÍ

---

Á mynd með frétt eru Hrafn (t.h) og á mynd fyrir neðan er Sara (t.h.)
Ljósmyndir: JSÍ