Hrafnhildur Hanna og Elvar Örn íþróttafólk Árborgar

ithrottafolk-arborgar
ithrottafolk-arborgar

Kjöri íþróttafólks Árborgar fyrir árið 2016 var lýst á uppskeruhátíð íþrótta- og menningarnefndar sem fram fór í Fjölbrautaskóla Suðurlands milli hátíða. Líkt og undanfarin ár kom íþróttafólk Árborgar bæði úr röðum Umf. Selfoss og nánar tiltekið úr handknattleiksdeild Selfoss í ár og ber það vitni um öflugt og gott starf deildarinnar.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er íþróttakona Árborgar. Hún hefur verið besti leikmaður Selfoss sem leikur í Olís-deildinni í handbolta og er auk þess langmarkahæsti leikmaður deildarinnar. Á seinasta keppnistímabili var Hanna valin í úrvalslið Olís-deildarinnar. Hún er og fastamaður í A-landsliði Íslands hvar hún hefur þegar leikið 20 landsleiki.

Hrafnhildur Hanna hlaut 189 stig í kjörinu. Í öðru sæti varð fimleikakonan Margrét Lúðvígsdóttir og taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir varð þriðja en þær keppa báðir fyrir hönd Umf. Selfoss.

Elvar Örn Jónsson er íþróttakarl Árborgar. Hann hefur verið besti leikmaður Selfoss sem vann sig upp í Olís-deildina sl. vor. Hann er nú meðal markahæstu manna deildarinnar auk þess sem hann hefur verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Íslands og var nú nýverið valinn í æfingahóp A-landsliðs Íslands í fyrsta sinn.

Elvar Örn hlaut 189 stig í kjörinu. Í öðru sæti varð fimleikamaðurinn Rikharð Atli Oddsson og júdómaðurinn Egill Blöndal varð þriðji en þeir keppa einnig fyrir Umf. Selfoss.

Á hátíðinni voru veittir styrkir úr afreksjóðum íþróttafélaganna í Árborg með stuðningi sveitarfélagsins. Einnig voru íþróttamenn sem unnu Íslands-, bikar- og deildarmeistaratitla á árinu heiðraðir og Golfklúbbur Selfoss hlaut hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar fyrir öflugt starf á undanförnum árum, þar sem meðal annars eru lögð mikil rækt við barna-, unglinga- og afrekskylfingastarf.

Nánar er greint frá hátíðinni á vef Sunnlenska.is.

mm/gj

---

Elvar Örn og Hrafnhildur Hanna ásamt Guðmundi Kristni Jónssyni formanni Umf. Selfoss.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur Jónsson