Hvert andlit gefur stelpunum auka kraft

Hallur
Hallur

Stelpurnar í meistaraflokki Selfoss í handbolta hófu leik á Íslandsmótinu í handbolta þann 21. september sl. Fjallað er um stutta sögu meistaraflokks kvenna frá því hann var endurvakinn í Dagskránni og á vef DFS.is en stelpurnar eru nú á öðru ári í efstu deild. Þær hafa lagt sig alla fram og sýnt stöðugar framfarir. Foreldrar og vinir, ásamt stjórn handknattleiksdeildar, hafa tekið sig saman og búið til umgjörð sem hæfir liði í Olís deildinni. Boðið hefur verið upp á ávexti og djús í hálfleik fyrir lið og dómara og hressingu að leik loknum. Allir hafa verið boðnir og búnir að hjálpa til þó alltaf sé þörf fyrir hjálparhönd því það þarf að manna ritaraborðið, miðasöluna, veitingasöluna, kústinn, útvega fánabera, sjá um ávextina, auglýsingaskilti og margt fleira.

Einn af þeim sem lengi hefur starfað í kringum meistaraflokkana er Hallur Halldórsson tannlæknir. Hann hefur um árabil tengst handboltanum á Selfossi, var m.a. í unglingaráði og síðan formaður handknattleiksdeildarinnar árum saman. Í stuttu spjalli við Örn Guðnason ritstjóra Dagskrárinnar sagði hann að stelpurnar væru sterkari en í fyrra og spiluðu heilsteyptari handbolta. „Við verðum þó að taka með í reikninginn að það tekur tíma að búa til lið sem getur spilað vörn, sókn og hraðaupphlaup“, sagði Hallur. „Við erum með mjög sterkan 3. flokk kvenna sem verður gaman að fylgjast með í vetur. Nokkrir leikmenn úr því liði eru nú að koma inn í meistaraflokkinn og eru þar í lykilhlutverkum. Ég vil hvetja fólk til að mæta á handboltaleiki í vetur, bæði hjá stelpunum og strákunum. Hvert andlit gefur auka kraft“, sagði Hallur.

Mynd af vef DFS.