Jákvæð áhrif íþróttaiðkunar á líðan ungmenna

rannsoknir_logo
rannsoknir_logo

Í nýjasta fréttabréfi HSK kemur fram að frá árinu 1992 hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna hér á landi undir heitinu Ungt fólk.

Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru gerðar meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum og í öllum árgöngum framhaldsskóla landsins með reglulegu millibili. Þær þykja einstæðar á heimsvísu m.a. sökum þess að þær ná til allra ungmenna í landinu sem mættir voru í skólann þá daga sem rannsóknin var lögð fyrir.

Þann 7. nóvember sl. voru kynntar helstu niðurstöður rannsóknarinnar og þar kom m.a. fram að mikil aukning hefur orðið frá árinu 2007 á íþróttaiðkun (4x í viku eða oftar) og þá sérstaklega meðal stelpna. Árið 2007 sögðust um 29% stelpna æfa eða keppa með íþróttafélagi 4x í viku eða oftar en nú, árið 2013, segja um 42% stelpna að þær æfi eða keppi þetta oft. Einnig kom fram að nemendur sem æfa íþróttir með íþróttafélagi eru síður líklegir til að upplifa sig einmana (sl. sjö daga fyrir könnun).

Heildarniðurstöður úr rannsókninni verða gefnar út á bók og birtar á vef Rannsóknar og greiningar ehf.

Eftirfarandi kafli úr rannsókninni frá árinu 2012 fjallar um íþróttir og hreyfingu.

Regluleg líkamleg áreynsla og hreyfing er mikilvæg börnum og unglingum líkt og fullorðnum. Hafa rannsóknir meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla sýnt að hlutfall þeirra unglinga sem hreyfa sig mikið hefur aukist hér á landi undanfarin ár en að sama skapi hafi hlutfall þeirra sem hreyfa sig lítið eða ekki neitt einnig aukist.

Í ljósi þessa er vert að benda á að rannsóknir sýna ítrekað að börn og ungmenni sem stunda íþróttir og/eða líkamsþjálfun reglulega eru líklegri til að líða betur og eru ólíklegri til að reykja sígarettur, nota vímuefni, eða taka þátt í öðru neikvæðu atferli, í samanburði við þá sem ekki stunda slíkt.

Við þetta má bæta að stöð ugt fleiri rannsóknir benda til að beint orsaka sam band sé að finna á milli líkamlegs atgerfis, hreyfingar og námsframmistöðu barna og unglinga.

Niðurstöður sýna meðal annars að hlutfall þátttakenda í íþróttastarfi á vegum íþróttafélaga eykst heldur frá 2009 og hefur aukist mikið frá árinu 2000. Þá fjölgar þeim sem stunda einhverskonar íþróttir eða líkamsrækt einnig á milli ára og á það við um bæði kyn. Auk þessa kemur fram hlutfall iðkenda ýmissa íþróttagreina og verða þar fremur litlar breytingar á milli ára.

Að lokum kemur fram að margar ástæður geta legið að baki brottfalli úr íþróttastarfi en algengustu svör sem þátttakendur nefna eru áhugamissir, tímaleysi og að vinirnir hafi hætt.

Hér má nálgast skýrsluna Ungt fólk 2012, menntun, menning, íþróttir, tómstundir, hagir og líðan nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla í heild sinni.