Kristinn Þór tvöfaldur Íslandsmeistari

Kristinn Þór Íslandsmeistari í 800m hlaupi og Þorvaldur Gauti Hafsteinsson í 3.sæti.
Kristinn Þór Íslandsmeistari í 800m hlaupi og Þorvaldur Gauti Hafsteinsson í 3.sæti.

Meistaramót Íslands var haldið í Laugardalshöll helgina 18.-19.febrúar. Nokkrir vaskir keppendur frjálsíþróttadeildar Selfoss tóku þátt með góðum árangri. Keppendur frjálsíþróttadeildar Selfoss unnu tvenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og fern bronsverðlaun á mótinu.

Kristinn Þór Kristinsson hóf keppni að nýju á þessu ári eftir fimm ára pásu. Kappinn sem er á 34. aldursári gerði sér lítið fyrir og varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hann hljóp 800 m á 1.56,14 mín sem er besti árangur innanhúss á þessu ári og 1500m hljóp hann á 4:07,61 mín sem er einnig besti árangur ársins á Íslandi. Frábær árangur hjá Kristni og gaman að sjá hann aftur á brautinni. Hinn stórefnilegi Þorvaldur Gauti Hafsteinsson sem einungis er 16 ára náði þeim frábæra árangri að ná 3.sæti í 800m hlaupi á tímanum 2:02,14 mín. Daníel Breki Elvarsson stórbætti sig í langstökki þegar hann stökk til silfurverðlauna með 6.53m löngu stökki. Daníel Breki var aðeins 9 cm frá 39 ára gömlu HSK meti Jóns Birgis Guðmundssonar í flokki 16-17 ára. Daníel Breki vippaði sér síðan yfir 1.72m í hástökki og náði 4.sæti en hinn 15 ára gamli fjölhæfi Hjálmar Vilhelm Rúnarsson stökk yfir 1.72m í 1.tilraun og vann til bronsverðlauna.

Hugrún Birna Hjaltadóttir heldur áfram að gera góða hluti. Hugrún Birna sem er 15 ára náði þeim frábæra árangri að vinna til bronsverðlauna í þristökki með því að stökkva 10.72m og bæta sinn besta árangur. Í langstökki setti Hugrún Birna HSK met í flokki 15 ára þegar hún stökk 5.22 og sló 6 ára gamalt HSK met Bríetar Bragadóttur. Hún náði að komast í úrslit í langstökki og endaði í 7.sæti. Að lokum bætti hún sinn besta árangur í 200m hlaupi þegar hún hljóp á tímanum 27,45 sek.

Hin 16 ára Ísold Assa Guðmundsdóttir gerði vel þegar hún vippaði sér yfir 1.57m í hástökki og vann til bronsverðlauna. Hún stökk einnig 10.67m í þrístökki og endaði í 5.sæti. Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir hljóp 800m á 2:36,31m og varð í 5. Sæti og Hildur Helga Einarsdóttir kastaði kúlunni 10,54m og varð í 5.sæti.