Kynning á leikmannahópi Selfoss

Mfl. kk. 2013
Mfl. kk. 2013

Á vefsíðunni selfoss.org, eða Orginu eins og það er jafnan kallað, var fyrir skemmstu farið yfir breytingar á leikmannahópi meistaraflokks karla í knattspyrnu fyrir keppnistímabilið sem nú er nýhafið. Það var Einar Matthías Kristjánsson sem tók pistilinn saman og er hann birtur hér með góðfúslegu leyfi hans, eilítið staðfærður og styttur.


Hópurinn

Þó Orgið hafi tekið því rólega þá mættum við nú á nánast alla leiki í fyrra og þekkjum liðið ágætlega, Már sem vallarkynnir og Einar Matthías sem blaðamaður fótbolta.net. Sama verður ekki sagt í vetur og því er hópurinn svolítið mikið óskrifað blað fyrir okkur nú. Eins eru menn að bætast við núna á síðustu stundu og liðið því óskrifað blað fyrir fleirum en okkur. Okkur langar því aðeins að fara yfir hópinn og kynna okkur hann betur án þess að þekkja hann mjög mikið.

Fótbolti.net spáir liðinu 8. sæti og setur byrjunarliðið upp svona.

Nokkrir stórir póstar hafa yfirgefið skútuna eins og gerist of oft milli ára en nýjir menn auðvitað komið í staðinn.

Byrjum því á að fara aðeins á hundavaði yfir hópinn í ár, nánast því blint enda margir sem maður þekkir lítil sem engin deili á.

Markverðir

Fyrir það fyrsta tók ég andköf þegar ég sá nýjan markmann skv. fótbolti.net og hélt að Beggi Rauði hefði loksins fengið tækifærið og yrði í rammanum í sumar. Svo er nú ekki og hann heitir blessunarlega Bergsteinn Magnússon (ekki Bergsveinn). Hér er á ferðinni efnilegur strákur frá Keflavík fæddur 1994 og spilaði þrjá leiki með þeim í Pepsi deildinni í fyrra.

Til að berjast við hann um stöðuna fengum við einnig Vigni Jóhannesson, sá er uppalinn Bliki sem hefur verið á láni hjá Njarðvík undanfarin tvö tímabil. Gott ef þeir koma ekki bara saman í bíl frá Reykjanesbæ.

Jóhann Ólafur er hættur og verður líklega ráðinn á Orgið strax á morgun.

Vörn

Fyrirliðinn er Everton maðurinn Andy Pew og verður hann hjartað í vörninni áfram. Andy er að endurtaka það sem hann var uppphaflega fenginn til að gera fyrir ca. 10 árum og hefur ferillinn verið á góðu róli hjá honum undanfarin ár eftir erfið meiðslaár þar á undan. Ef Andy er heill stjórnar hann vörninni vel og talar mikið á velli líkt og bókstaflega allir gera á hans heimaslóðum.

Með honum verður Luka Jagacic sem ætlar að taka meiðslalaust tímabil í ár, hann missti að mig minnir úr 4-5 leiki í fyrra en var tæpur fyrir nokkra þeirra. Luka var eins og áður segir með okkur í fyrra og spilaði þá mest á miðjunni. Hann er eini erlendi leikmaðurinn frá því í fyrra sem kemur aftur í ár og er núna hugsaður sem miðvörður (Andy telst ekkert sem útlendingur). Það er hörku bolti í þessum strák sem vonandi kemur mun sterkari til leiks í ár, búinn að venjast hóp og aðstæðum.

Þorsteinn Daníel fékk gott tækifæri í fyrra og býr vonandi að því á þessu tímabili. Mjög efnilegur bakvörður sem getur einnig spilað framar þegar þess er óskað. Lykilmaður hjá okkur í sumar og verður vonandi bara betri.

Bjarki Aðalsteinsson er búinn að semja aftur við Selfoss eftir að hafa verið á láni frá Blikum í fyrra. Hann mun berjast um stöðu í vörninni fram í ágúst er hann fer út í nám.

Bjarki Ben. sem við fengum frá FH í fyrra verður í sama pakka og nafni sinni, spilar bakvörðinn þar til hann fer til Bandaríkjanna í ágúst. Kaninn þarf aðeins að fara endurskoða þetta skólaár hjá sér.

Kjartan Sig. sem undanfarin ár hefur verið í námi úti er kominn aftur heim og gæti verið með í sumar nái hann sér af meiðslum. Hann var í hópnum fyrir 2-3 árum.

Tvíburabræðurnir Geir og Kolbeinn Kristinssynir eru komnir frá Fjölni og geta leyst allar stöður í vörninni rétt eins og síðasta tvíburapar Selfossliðsins gat gert (Helgi og Hlynur). Margir muna eftir þeim úr liði Árborgar fyrir nokkrum árum þaðan sem þeir fóru á láni frá uppeldisfélaginu. Kolbeinn var að spila ca. helming leikja Fjölnis í fyrra líkt og þeir gerðu báðir bræðurnir árið 2012.

Af ungu pjökkunum hefur Birkir Pétursson verið að spila mikið á undirbúningstímabilinu og stefnir líklega á að banka á dyrnar hjá aðalliðinu í sumar. Efnilegur leikmaður fæddur 1995.

Miðjumenn

Það er ljóst að Sindri Snær skilur eftir sig töluvert skarð en hann fór til Keflavíkur.

Minn maður Zakari Hamza ætlar að fylla þetta skarð og gera það vel. Þarna er á ferðinni miðjumaður frá Gana sem var á mála hjá Tromsö í fyrra og spilaði þar einn leik í Europa League. Flestir af bestu leikmönnum heimsins eiga slíkt ekki á ferilsskránni. Ekki veit ég nokkurn skapaðan hlut um manninn en hann kemur í gegnum samstarf Selfoss við umboðsfyrirtæki í Noregi.

Andri Már Hermannsson er einnig nýr en hann kemur frá vinum okkar í Fylki. 21 árs miðumaður með fínan hraða. Andri hefur verið á mála hjá Fylki alla tíð og aðeins fengið smjöþefinn af meistaraflokknum þar, spilaði m.a. 11 leiki í Pepsideildinni 2011. Hann fór á láni í fyrra til Lárusar Orra og félaga í KF  en spilaði aðeins 7 leiki. Hentaði ekki í leikkerfið þeirra sögðu norðanmenn sem hefðu mögulega frekar átt að breyta um taktík því liðið féll.

Uppáhaldsleikmaður minn í liðinu í ár og frændi Jón Guðbrands er auðvitað Einar Ottó Antonsson. Ef hann er í svipuðu standi og vanalega lokar hann miðjunni fyrir okkur. Án þess að hafa hugmynd um standið á Ottó tippa ég á að hann verði leikmaður ársins.

Ingvi Rafn Óskarsson fékk dýrmæta reynslu í fyrra og spilaði oft á tíðum vel, hann gæti orðið lykilmaður í sumar haldi hann áfram að bæta sig.

Fjölhæfasti leikmaður liðsins og hinn uppáhalds leikmaðurinn minn er svo Ingi Rafn Ingibergsson. Hann getur spilað flestar stöður en hans besta staða er líklega á miðjunni. Ingi er ávallt í góðu standi og verður drjúgur í baráttu sumarsins.

Frændi Inga Rafns og „one to watch" úr öðrum flokki er svo Haukur Ingi Gunnarsson. Hann hefur spilað mikið í vetur og fær vonandi séns í sumar.

Kantmenn

Hér eigum við vonandi fleiri leikmenn sem njóta góðs af því að hafa fengið sénsinn í fyrra. Svavar og Maggi komust fyrst í mfl. í fyrra og voru oft sprækir.

Magnús Ingi er mjög fljótur og vonandi springur hann út í sumar. Hvort hann er talinn sem sóknarmaður eða á kantinum veit ég svo sem ekki, fer eftir leikkerfi. Setti eitt mark í fyrra en bætir a.m.k. 6-7 við þá tölu í sumar.

Svavar Berg er búinn að vera mikið efni í mörg ár og spilaði 17 leiki í fyrra (þá 18 ára gamall). Hann fékk 6 gul spjöld í deildinni í fyrra sem sýnir að hann er bróðir Auðuns Jó þó vissulega hefði eldri bróðirinn alltaf verið búinn að taka a.m.k. eitt rautt í svo mörgum leikjum. Mikið efni rétt eins og bróðir hans var á sínum tíma og klárlega „one to watch" í sumar.

Hafþór Mar Aðalgeirsson er nýjasti leikmaður Selfoss, leikmaður sem Gunni þjálfari þekkir vel til frá U17. Hann er á mála hjá Fram en lenti í meiðslum í vetur og hefur ekki komist í afar efnilegt lið þeirra fyrir sumarið. Hann var bestur í afar döpru liði Völsungs í fyrra og skoraði fyrir þá 7 mörk. Hann er 19 ára og getur spilað á kantinum eða frammi. Þetta gæti orðið lúmskt góður lánsdíll, vonandi fyrir alla aðila (Fram, Selfoss og auðvitað Hafþór).

Einn í viðbót til að fylgjast með er svo Richard Sæþór Sigurðsson, 17 ára pjakkur ættaður frá Vestmannaeyjum (frændi Tryggva Guðmunds) sem getur spilað bæði á vængnum sem og frammi eins og frændi sinn. Veit ekki hvort hann sé í hóp í sumar en hann er a.m.k. búinn að spila flesta leikina á undirbúningstímabilinu.

Sókn

Elton Barros á að fylla skarð Javier Zurbano og Joe Yoffe í framlínunni. Hann kemur frá Grænhöfðaeyjum og var svo gott sem búinn að semja við Selfoss árið 2012 en meiddist og það datt uppfyrir. Fyrir þetta tímabil var hann á leið til Ull/Kisa í Noregi og var það nánast frágengið en það klikkaði á lokametrunum og því er hann hjá okkur.

Ef hann er nógu góður fyrir Ull/Kisa sem nýlega fékk til sín Jóhann Laxdal t.a.m er hann vonandi nógu góður fyrir 1. deildina hér. Hann er sagður vera smá frá því að vera í standi og það er ekki búið að ganga frá pappírum (leikheimild) fyrir hann og Hamza ennþá en tekst vonandi fyrir fyrsta leik.

Joe Yoffe var einn besti sóknarmaður deildarinnar í fyrra en það gleymist aðeins þar sem hann var svo mikið meiddur. Árið þar áður vorum við með Jón Daða og Viðar í sókninni og því ljóst að hann þarf að fylla í sæmilega stóra skó blessaður.

Þjálfarateymi

Engar breytingar hér, sami þjálfari Gunnar Guðmundson og með honum er Hermann Valsson.

Elías Örn heldur markmönnunum við efnið. Jói Árna, Óskar Ar og legendið Árni Leó fara svo ítarlega yfir í það í sumar hvað fór úrskeiðis hjá Tottenham.

Ninni keyrir rútuna og kemur kannski eitthvað inn líka og bjargar umræðum um enska boltann.

Stefán Magni og Trausti sjá svo væntanlega áfram um að kyssa á bágtið hjá leikmönnum og stjórna umræðum um enska boltann.


Farnir frá því í fyrra

Bernard Brons – farinn aftur til Noregs eftir frekar erfitt tímabil í fyrra, var hjá Selfoss eitt og hálft tímabil.

Javier Zurbano –  fór einnig til heimalandsins. Merkilega drjúgur sóknarmaður.

Joe Yoffe – Þetta gæti orðið ein versta blóðtakan, ef hann verður heill tippa ég á að hann verði bestur í deildinni í sumar. Hjörvar Hafliða knattspyrnuspekingur lofaði mér því fyrir mótið í fyrra að hann myndi skora mikið og það stóðst mjög vel hjá honum þar til hann lenti í meiðslum.

Jóhann Ólafur –  hættur og genginn til liðs við Orgið. Agalegt að missa Jóa úr rammanum á allra besta aldri markmanns. Jói hefur verið stór partur af liði Selfoss á skemmtilegasta kafla í sögu félagsins og við höfum fengið smjörþefinn af því hversu stórt skarð hann skilur eftir sig (sumarið 2012).

Juan Povedano Martinez – farinn aftur til Spánar, ekki mjög eftirminnilegur en toppdrengur samt.

Ingólfur Þórarinsson – Hann fór bara í alvöru í  Hamar og það á besta aldri knattspyrnumanns. Við óskum auðvitað Ingó vini okkar alls hins besta í Hveragerði, hann hefur reynst Selfoss mjög vel bæði innan sem utan vallar síðan hann kom fyrst aftur árið 2007. Hef bullandi trú á þjálfaraferlinum hans enda Ingó fæddur og uppalinn í íþróttahúsi undir handleiðslu uppáhalds íþróttakennara nánast allra sem fóru í íþróttir í FSu. Stemmingin er líka flott í Hveragerði núna.

Sigurður Eyberg Guðlaugsson – Eyberg fór  í Ægi! Að missa  Sigga er svipað áfall og þegar Jón Guðbrands yfirgaf Selfoss og koma hans í Þorlákshöfn mikill hvalreki fyrir bæjarfélagið.

Sindri Pálmason – Óvænti atvinnumaðurinn klárlega en hann stóð sig vel á reynslu hjá  Esbjerg og spilar með þeim núna. Frábært mál þó manni langi óneitanlega að sjá þessa pjakka spila svona eins og korter fyrir Selfoss áður en við missum þá í atvinnumennsku. Verður spennandi að fylgjast með Sindra í framtíðinni.

Sindri Snær Magnússon – var á láni frá Blikum í fyrra og fór til Keflavíkur í sumar. Mjög vont að missa hann enda einn af okkar bestu mönnum í fyrra.

Joe Tillen – Hann gekk til liðs við Selfoss á ný í vetur en er farinn aftur einhverrahluta vegna. Svekkjandi þar sem þetta er reyndur og góður leikmaður.


Setjum sumarið af stað með þessu og sjáum til hversu öflugir við verðum að uppfæra síðuna. Eins og sjá má er þetta skrifað af einhverjum sem hefur ekki séð einn leik í vetur og þekkir ekki nógu vel til liðsins, enginn af þeim sem hafa séð þessa leiki eða eru með hópnum hafa verið að bjóðast til að gera þetta þannig að vonandi er þetta þekkingarleysi fyrirgefið og tekið viljan fyrir verkið.

Þetta sumar er sæmilega pressulaust og við erum með hóp sem hefur alla burði til að koma á óvart.

Áfram Selfoss.