Leikmenn Selfoss til reynslu erlendis

Sindri Pálmason
Sindri Pálmason

Miðjumaðurinn Svavar Berg Jóhannsson og bakvörðurinn Þorsteinn Daníel Þorsteinsson dvelja í vikutíma hjá enska félaginu Brentford á reynslu í næstu viku. Fréttavefur Sunnlendinga, Sunnlenska.is, greindi frá þessu. Báðir leikmennirnir festu sig rækilega í sessi í liði Selfyssinga í 1. deildinni í sumar og var Þorsteinn valinn efnilegasti leikmaður liðsins á lokahófi.

Selfoss og Brentford gerðu síðastliðinn vetur samstarfssamning en þetta er í annað sinn sem Svavar Berg fer út og æfir með félaginu. Hann fór þangað síðast í febrúar ásamt Fjalari Erni Sigurðssyni.

Þá sagði Sunnlenska.is einnig frá því að miðjumaðurinn Sindri Pálmason æfði með dönsku bikarmeisturunum í Esbjerg í seinustu viku. Sindri er 17 ára miðjumaður sem spilaði þrjá leiki með uppeldisfélagi sínu í 1. deildinni í sumar og var lykilmaður í 2. flokki félagsins. Hann lék einnig sína fyrstu landsleiki með U19 ára liði Íslands á Svíþjóðarmótinu um miðjan september.

Myndina tók Guðlaugur Tómasson af Sindra á æfingu með Esbjerg.