Með bros á vör

Þórir Haraldsson UMFÍ
Þórir Haraldsson UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina í sumar, dagana 30. júlí til 2. ágúst. HSK sér um framkvæmd mótsins í samstarfi við UMFÍ og Sveitarfélagið Árborg.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem allir 11-18 ára geta keppt á en einnig eru verðug verkefni fyrir bæði yngri börn sem og fullorðna. Keppnisgreinarnar eru 24 talsins að þessu sinni. Mótið er fjölskyldu- og íþróttahátíð því einnig er boðið upp á tónleika á kvöldin og metnaðarfulla dagskrá fyrir alla mótsgesti.

Við búumst við miklum fjölda keppenda og gesta um helgina, margir munu nýta sér tjaldsvæðin við Suðurhóla og Engjaveg, aðrir í nálægum byggðum. Við hvetjum Selfyssinga og aðra Sunnlendinga til að taka þátt í mótinu, keppnisgreinum, skemmtun og afþreyingu, auk þess sem þörf er á fjölda sjálfboðaliða við undirbúning og framkvæmd mótsins.

Við heimamenn, einstaklingar og fyrirtæki, þurfum líka að búa okkur undir að taka vel á móti gestum okkar, veita þjónustu, aðstoð og vera jákvæð; með bros á vör!

Undirbúningur er kominn í fullan gang, fréttir og dagskrá mun birtast á vefsíðu mótsins www.ulm.is, skráningarfrestur í keppnisgreinar verður fram að helginni fyrir mót en ekki mun þurfa að skrá þátttöku fyrirfram í afþreyingu og marga viðburði mótsins. Til að geta framkvæmt mótið þarf fjármagn og munu fulltrúar okkar á næstunni leita til fyrirtækja um samstarf og stuðning við mótshaldið en þeir sem hafa áhuga á samstarfi, hafa hugmyndir eða tillögur eiga endilega að hafa samband við HSK, t.d. með tölvupósti á netafangið hsk@hsk.is eða með því að hringja í síma 482 1189.

Allir eru velkomnir, - allar hugmyndir eru velkomnar, margar hendur þarf til aðstoðar. Verum jákvæð, tökum þátt, - með bros á vör.

F.h. framkvæmdanefndar ULM
Þórir Haraldsson, formaður.

---

Ljósmynd: UMFÍ