MÍ 15-22 ára | Ellefu titlar Sunnlendinga

frjalsar-mi-15-22-ara-lidsmynd
frjalsar-mi-15-22-ara-lidsmynd

Helgina 25.-26. febrúar fór Meistaramót Íslands 15-22 ára fram í Laugardalshöll. HSK/Selfoss sendi öflugt lið sem samanstóð af 33 efnilegum unglingum víðsvegar af Suðurlandi. Keppendur HSK/Selfoss stóðu sig frábærlega og uppskáru eftir því. Liðið varð í öðru sæti í heildarstigakeppni félaga sem er besti árangur þessa aldurshóps í nokkur ár, fékk 329 stig en ÍR sigraði með 368 stig.

Í einstökum flokkum sigraði HSK/Selfoss 15 ára flokka bæði stúlkna og pilta með yfirburðum, varð í öðru sæti í 16- 17 ára flokki pilta og þriðja sæti í flokkum 18-19 ára pilta og 20-22 ára stúlkna. Hópurinn rakaði til sín verðlaunum eða 48 í heildina sem skiptist í 10 gull, 21 silfur og 17 brons. Þetta var annar mesti fjöldi verðlauna allra félaga sem tóku þátt í mótinu aðeins ÍR var með fleiri verðlaun. Og síðast en ekki síst þá litu dagsins ljós 61 bæting hjá okkar fólki.

 Ellefu Íslandmeistaratitlar

HSK/Selfoss átti níu einstaklinga sem voru fremstir meðal jafningja í ellefu greinum. Í flokki 15 ára sigraði Selfyssingurinn Hákon Birkir Grétarsson í tveimur greinum í 60 m grindahlaupi á 8,92 sek. og 60 m hlaupi á 7,72 sek. en þetta er líka bæting í báðum greinum. Jónas Grétarsson Selfoss stökk lengst allra í þrístökki í sama flokki á persónulegri bætingu 11,58 m. Hrunamaðurinn Máni Snær Benediktsson sigraði í hástökki í 15 ára flokknum er hann vippaði sér yfir 1,75 m sem er bæting. Kolbeinn Loftsson úr Selfossi bætti sig um 20 cm í stangarstökki þegar hann stökk hæst allra í 15 ára flokknum. Þá varpaði Selfossmærin Hildur Helga Einarsdóttir kúlu lengst allra 15 ára stúlkna með 11,46 m og Bríet Bragadóttir frá Selfossi sigraði í hástökki 15 ára stúlkna eftri hörkukeppni þar sem umstökk þurfti til að knýja fram úrslit, stökk 1,50 m.

Stefán Narfi Bjarnason úr Þjótanda þaut fram úr öllum keppinautum sínum í 60 metra hlaupi 16-17 ára, jafnaði sinn besta árangur í undarásum 7,56 sek. en bætti um betur í úrslitunum þar sem hann kom í mark á 7,42 sek. og sigraði.  Í 18-19 ára flokki stúlkna sigraði Harpa Svansdóttir frá Selfoss í þrístökki er hún stökk 11,19 m og í þrístökki stúlkna í elsta flokknum 20-22 ára vann Selfyssingurinn Guðrún Heiða Bjarnadóttir er hún jafnaði sinn besta árangur 5,59 m.

Síðast en ekki síst sigruðu 15 ára piltarnir okkar í 4x200 m boðhlaupi á nýju mótsmeti og HSK meti í sínum flokki 1:44,61 mín. Sveitina skipuðu Jónas , Máni Snær, Hákon Birkir og Dagur Fannar Einarsson.

Það voru svo 15 keppendur HSK Selfoss sem unnu til 21 silfurverðlauna í hinum ýmsu greinum og 16 keppendur HSK Selfoss sem hirtu 17 bronsverðlaun sem er frábær árangur.

Fjórtán HSK met                   

Keppendur HSK Selfoss settu fjórtán HSK met og jöfnuðu fjögur. Bríet Bragadóttir Selfossi setti fimm met og jafnaði þrjú. Hún tvíbætti metið í 60 m hlaupi síns flokks, 15 ára er hún hljóp á 8,18 sek. í undanrásum og svo í úrslitum á 8,12 sek. en það er HSK met í 16-17 ára flokki einnig og jöfnum á HSK meti í 18-19 ára flokki stúlkna. Í langstökki 15 ára stúlkna sló Bríet 33 ára gamalt met um einn cm er hún stökk 5,10 m. Að síðust bætti Bríet sitt eigið HSK met í 60 m grindahlaupi 15 ára hljóp á 9,58 sek. Lára Björk Pétursdóttir Laugdælum hljóp gott 1500 m hlaup á 5:20,22 mín. sem er HSK meti í 15 og 16-17 ára flokki stúlkna. Þá setti hún HSK met í þremur flokkum í 300 m hlaupi, 15, 16-17 og 18-19 ára, er hún kom í mark á 44,62 sek. Þá setti Guðrún Heiða Selfossi HSK met í 60 m hlaupi 20-22 ára stúlkna og fullorðinna hljóp á 8,09 sek. Hún jafnaði svo metið í langstökki í 20-22 ára flokknum er hún sveif 5,59 m. Að lokum settu boðhlaupsveitir pilta í 15 ára og 16-17 ára flokkunum HSK met í 4x200 m boðhlaupi. Sveit 16-17 ára pilta skipuðu: Antony Karl Laugdælum, Ýmir Atlason Selfossi, Kolbeinn Loftsson Selfossi og Stefán Narfi Bjarnason Þjótánda.

En það er ljóst að framtíðin er björt í frjálsum á HSK svæðinu nú þarf bara að halda áfram og horfa fram á veginn, halda iðkendum við efnið og þá eiga enn betri hutir eftir að gerast.

Öll úrslit er hægt að nálgst á Þór, mótaforriti FRÍ.

óg

---

Sveit HSK/Selfoss stillti sér upp til myndatöku að loknum góðu móti.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson

20170226_124024 frjalsar-mi-15-22-ara-60-metra-pilta-15-ara frjalsar-mi-15-22-ara-bodhlaupssveit-pilta-15-ara frjalsar-mi-15-22-ara-bodhlaupssveit-pilta-16-17-ara frjalsar-mi-15-22-ara-bodhlaupssveitir-15-ara-stulkna frjalsar-mi-15-22-ara-sigurlid-pilta-15-ara frjalsar-mi-15-22-ara-sigurlid-stulkna-15-ara 20170226_144503 20170226_150437 frjalsar-mi-15-22-ara-60-metra-grind-pilta-15-ara