Mikið fjör á minningarmótinu 2017

Fimleikar - Lið ársins
Fimleikar - Lið ársins

Fimmtudaginn 25. Maí, uppstigningadag var haldið hið árlega minningarmót um Magnús Arnar Garðarsson fyrrum þjálfara en hann þjálfaði hjá deildinni þegar hún var ný stofnuð. Mótið var innanfélagsmót og haldið í Iðu. Allir eldri flokkarnir hjá deildinni tóku þátt á mótinu og stóðu sig með mikilli prýði. Verðlaunað var fyrir besta áhald hjá hverjum flokki og einnig voru þeir verðlaunaðir sem þóttu skara sérstaklega fram úr á tímabilinu. Efnilegustu unglingarnir voru þau Birta Sif Sævarsdóttir í Selfoss 2 og Dagur  Jósefsson í Selfoss 22. Evelyn Þóra Jósefsdóttir í Selfoss 2 og Bjarni Már Stefánsson í Mix 2 fengu verðlaun fyrir framför og ástundun. Félagi ársins var Guðrún Stella Ásbjörnsdóttir hjá Selfoss 2. Lið ársins var síðan Selfoss 7 en Linda Ósk Þorvaldsdóttir er þeirra aðal þjálfari. Hér fyrir neðan má sjá ýtarlegri umsögn um hvern og einn:

 Efnilegasti unglingur: Efnilegasti unglingur stúlkna er að þessu sinni fædd árið 2003. Hún er samviskusöm, metnaðarfull og leggur sig 100% fram í öllu sem hún gerir. Hún er dugnaðarforkur og með mikið keppnisskap. Hún hefur tekið miklum framförum í vetur og er lykilmanneskja í sínu liði. Þessi stúlka heitir Birta Sif Sævarsdóttir.

Efnilegasti unglingur drengja er að þessu sinni drengur sem sýnir mikinn metnað, keppnisskap og samviskusemi bæði á æfingum sem og í keppni.  Hann hefur náð miklum framförum á síðustu árum, hann er orðinn lykilmaður í sínu liði og keppti til að mynda með tveim liðum á Íslandsmóti unglinga núna í vor.  Hann er mikil fyrirmynd fyrir alla iðkendur í deildinni, bæði unga sem aldna.  Þessi drengur heitir Dagur Jósefsson.

Framför og ástundun: Viðurkenningu fyrir framför og ástundun stúlkna fær að þessu sinni stúlka sem er fædd árið 2003.  Hún er mjög metnaðarfull, mætir samviskusamlega á allar æfingar og gerir allt til að ná sínum markmiðum.  Það hefur skilað sér í mjög miklum framförum á öllum áhöldum í vetur og er hún lykilmanneskja í sínu liði.  Þessi stúlka heitir Evelyn Þóra Jósefsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framför og ástundun drengja fær að þessu sinni drengur sem er fæddur árið 2003.  Hann er mjög samviskusamur, er alltaf glaður og jákvæður og leggur sig allan fram í að ná markmiðum sínum.  Hann hefur náð miklum framförum í vetur og er lykilmaður í sínu liði, þessi strákur er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og heiti Bjarni Már Stefánsson.

Félagi ársins: Félagi ársins er að þessu sinni stúlka sem hefur staðið sig mjög vel í vetur og náð góðum árangri með sínu liði. Hún er mjög samviskusöm , mætir á allar æfingar með jákvæðu hugarfari og í góðu skapi. Hún er ekki feimin við að láta heyra í sér og er alltaf fyrst til að hvetja liðsfélaga sína áfram. Félagi ársins er Guðrún Stella Ásbjörnsdóttir.

Lið ársins: Lið ársins árið 2017 er samheldinn hópur sem hefur staðið sig mjög vel  í vetur.  Þrátt fyrir að vera á yngra ári í sínum flokki gefur hópurinn eldri liðunum ekkert eftir og hefur hópurinn verið í toppbaráttunni í allan vetur.  Þetta lið einkennist af miklum metnaði og góðri liðsheild, gaman er að fylgjast með þessum stelpum jafnt á æfingum sem og í keppni.  Hópurinn sem hlýtur titilinn Lið ársins 2017 heitir Selfoss 7.

---

Á mynd með frétt er lið ársins, Selfoss 7.
Á mynd fyrir neðan eru verðlaunahafar f.v. Guðrún Stella Ásbjörnsdóttir, Evelyn Þóra Jósefsdóttir, Birta Sif Sævarsdóttir, Dagur Jósefsson og Bjarni Már Stefánsson.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/IHH