Mikil stemmning á Selfossi

Mótokross - Íslandsmót á Selfossi 2017 (5)
Mótokross - Íslandsmót á Selfossi 2017 (5)

Um helgina fór fram önnur umferð í Íslandsmeistaramótinu í mótokross. Keppnin var haldin í mótokrossbrautinni á Selfossi og var vel heppnuð í alla staði.

Veðrið á laugadag lék við keppendur og áhorfendur en rigning undanfarna daga truflaði verulega undirbúning keppninnar. Starfsfólk deildarinnar lét það ekki á sig fá og vann dag og nótt svo allt gengi upp.

Keppendur á vegum Umf. Selfoss stóðu sig með prýði.

Í 85cc flokki varð Alexander Adam Kuc í fimmta sæti en á yngra ári í flokknum varð hann í öðru sæti. Þessi ungi maður er á hraðri uppleið í mótokrossi og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Í flokknum MX unglingar yngri varð Ármann Baldur Bragason hlutskarpastur en hann stóð sig með prýði í brautinni.

Í flokknum MX 2 varð Elmar Darri Vilhelmsson í þriðja sæti. Þessi flokkur er með mjög öflugum ökumönnum og var þetta virkilega góður árangur hjá Elmari Darra.

í unglingaflokki urðu Sindri Steinn Axelsson í þriðja sæti og Ármann Baldur Bragason í fjórða sæti. Flottur árangur hjá strákunum.

Í kvennaflokki varð Gyða Dögg Heiðarsdóttir í öðru sæti og Ásta Petrea Hannesdóttir í sjötta sæti. Hörkukeppni hjá þeim og stóðu þær sig gríðalega vel.

Öll úrslit mótsins má finna á vefsíðu MSÍ.

Næsta umferð í Íslandsmótinu fer fram á Akureyri þann 8. júlí og daginn eftir verður keppt í enduro, einnig á Akureyri. Það verður spennandi að fylgjast með okkar fólki þar.

Það var mikill atgangur í brautinni á laugardag eins þessar myndir, sem Sverrir Jónsson tók, bera með sér. Fleiri myndir er hægt að skoða á slóðinni www.motosport.is.