Öruggur sigur

Sjóli
Sjóli

Selfoss vann góðan sigur á Hömrunum 27-22 í Vallaskóla á föstudagskvöldið. Leikurinn var jafn í upphafi og staðan 4-4 eftir tæplega tíu mínútna leik en þá gáfu Selfyssingar í og náðu góðu forskoti. Mestur var munurinn sex mörk í fyrri hálfleik í stöðunni 14-8. Hamrarnir náðu að saxa á forskotið fyrir hlé og var staðan 17-14 þegar flautað var til hálfleiks. Eftir hlé skoruðu Hamrarnir fyrstu tvö mörkin en þá tóku Selfyssingar sig saman í andlitinu, neituðu að hleypa þeim nær og komust aftur sex mörkum yfir, 27-21 undir lok leiks en Hamrarnir skoruðu síðasta mark leikins. Lokatölur 27-22. Munurinn hefði klárlega getað verið meiri því á tímabili nýttu strákarnir færin sín ekki nógu vel en fínn leikur hjá okkar mönnum og flottur sigur.

Eftir þennan leik er Selfoss áfram í þriðja sæti deildarinnar sem gefur heimaleikjarétt í umspili um sæti í efstu deild nú í vor.

Hörður Másson var markahæstur í liði Selfoss með sex mörk, Árni Geir, Egill Eiríksson, Jóhann Erlings og Andri Már skoruðu þrjú hver, Guðjón Ágústsson, Egidijus Mikalonis, Daníel Arnar og Ómar Vignir tvö mörk hver og Sverrir Pálsson skoraði eitt mark. Sölvi Ólafsson átti flottan dag í marki Selfoss, varði 23 bolta sem gerir 51% markvörslu.

Mynd: Hörður Másson sækir að marki Hamranna. Myndina tók Johannes Ásgeir Eiríksson en fleiri myndir frá honum má sjá hér.