Öruggur sigur Selfyssinga á Akureyri

Handbolti Hrafnhildur Hanna
Handbolti Hrafnhildur Hanna

Selfoss sótti tvö stig gegn KA/Þór í Olís-deildinni norðan heiða á laugardag. Selfoss hafði tíu marka sigur 20-30 eftir að hafa leitt í hálfleik 9-13.

Selfyssingar höfðu undirtökin í leiknum allan tímann og náðu góðu forskoti undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik jókst munurinn jafnt og þétt og lauk leik með öruggum tíu marka sigris okkar stelpna.

Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, var mjög kátur eftir leik í samtali við vefmiðilinn FimmEinn.is en hann er jafnframt ánægður með leiktíðina hingað til og sér augljósar framfarir. „Við erum með 18 stig sem er jafn mikið og við vorum með alla síðustu leiktíð. Liðið er alltaf að bæta sig og það er klárlega gott. Við erum að spila alvöru leiki við alla. Næsta skref er að vinna liðin sem eru fyrir ofan okkur.“ Hann bætti við að liðið vildi vera í toppbaráttu deildarinnar.

Markaskorun: Hrafnhildur Hanna markahæst með 12/6 mörk, Carmen og Adina skoruðu 6 mörk, Steinunn og Kristrún 2 og Perla Ruth og Hildur Öder 1 mark. Áslaug Ýr varði 13 skot í marki Selfoss.

Að loknum fimmtán umferðum er Selfoss í 7. sæti deildarinnar með 18 stig. Liðið mætti í gær liði FH í 16-liða úrslitum Coca Cola bikarkeppninnar en tekur á móti Fjölni í Olís-deildinni í íþróttahúsi Vallaskóla á sunnudag kl. 16:00.

---

Hrafnhildur Hanna var langatkvæðamest Selfyssinga fyrir norðan.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE