Sætur sigur á móti Val

Handbolti - Hergeir Grímsson
Handbolti - Hergeir Grímsson

Selfyssingar sigruðu Val með einu marki, 29-28, á heimavelli í gærkvöldi og komust þannig upp fyrir Val í deildinni. Selfoss er nú í fimmta sæti með 24 stig en Valur í sjötta sæti með 23 stig. Mikilvægur sigur en okkar strákar hafa verið á góðu róli undanfarna leiki og klifrað upp stigatöfluna.

Valsmenn skoruðu fyrsta mark leiksins og má segja að þeir hafi verið skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn og fóru í leikhlé með tveggja marka forystu, 14-16, í hröðum og skemmtilegum leik.

Í seinni hálfleik náði Selfoss að jafna í 18-18 og komast svo einu marki yfir en þá kom slæmur kafli hjá heimamönnum sem töpuðu boltanum alltof oft og voru óheppnir með skot sem vildu ekki rata í mark Vals, auk þess missti Selfoss mann út af með rautt spjald eftir þrisvar tvær mínútur. Þegar um tólf mínútur voru eftir af leiknum leiddu Valsmenn með þremur mörkum, 20-23. Við þetta mótlæti þétti Selfoss raðirnar, náði mjög góðum kafla og skoraði fjögur mörk í röð. Staðan allt í einu orðin 24-23 fyrir Selfoss og um átta mínútur eftir af leiknum. Það sem eftir lifði leiks var jafnt á tölum en Selfoss skoraði tvö síðustu mörkin sem tryggði liðinu bæði stigin með þessum sæta sigri.

Sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var. Selfyssingar gerðu mistök og áttu slæma kafla í leiknum en Valsmenn tóku sinn slæma kafla út í lokin sem hleypti Selfyssingum loksins fram úr sem  náðu þar með báðum stigunum, rándýrum stigum.

Ekki er hægt að skrifa um þennan leik án þess að nefna stuðninginn sem Selfyssingar fengu úr stúkunni. Húsið var nánast fullt og stuðningurinn og stemmingin í húsinu var frábær.

Fjallað er um leikinn og rætt við Stefán þjálfara á vef Sunnlenska.is.

Jóhannes Ásgeir Eiríksson var á leiknum og fangaði stemmninguna.

Mörk Selfoss: Hergeir 8, Teitur 8, Elvar Örn 6, Guðni 4, Einar 2 og Alexander 1.

Einar Ólafur varði 10 skot í markinu og Helgi 3.

Síðast leikurinn í deildinni verður þriðjudaginn 4. apríl á móti FH. Leikurinn fer fram í Kaplakrika og hefst klukkan 19:30.

Hergeir svífur inn í teig andstæðinganna.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE