Selfoss í Pepsi-deild - lið allra Sunnlendinga

Nú þegar boltasumarið er komið vel af stað og meistaraflokkslið okkar komin á fullt og í hörkubaráttu í Pepsi-deildum langar okkur, sem fyrrverandi leikmenn Selfoss, að koma á framfæri mikilvægi þess við eigum gott lið í efstu deild og að Sunnlendingar allir styðji sitt lið.

Lífsstíll að halda með sínu liði
Það er góður lífsstíll að halda með sínu liði og fylgja því eftir. Þannig látum við gott af okkur leiða. Það er gaman að koma á völlinn á leikdegi og taka þátt í þeirri fjölskylduskemmtun, sem hann svo sannarlega er. Við finnum hjá okkur þörf eða réttara sagt skyldu til þess að mæta og styðja okkar lið og hvetja áfram. Þannig náum við upp stemningu á heimaleikjum og getum gert heimavöllin að óvinnandi vígi. Það á að vera erfitt fyrir mótherja okkar að koma á Selfoss. Þeir eiga að skjálfa í hnjánum er þeir koma yfir Ölfusárbrúnna.

Margföldunaráhrif
Það hefur auðvitað mikla þýðingu fyrir Suðurland að eiga góð lið í efstu deild. Ekki einungis er það kynning fyrir svæðið heldur líka eflir það viðskipti við þjónustufyrirtæki hér. Fjöldi fyrirtækja á svæðinu hefur þegar áttað sig á þessari staðreynd og tekur þátt í að styrkja knattspyrnudeildina. Enda sýnir það sig í því að verslun og viðskipti aukast verulega í kringum heimaleiki, þegar hundruðir áhorfenda streyma til Selfoss. Þá er það líka mikil hvatning fyrir yngri iðkendur að eiga fyrirmyndir, sem hægt að er að líta upp til.

Knattspyrna án landamæra
Nokkuð hefur verið rætt um útlendinga í liði Selfoss. Knattspyrnan í dag er hins vegar án landamæra. Til að styrkja liðið var nauðsynlegt að fá aðkomumenn til liðsins. Ekki síst þegar fjölmargir reynsluboltar og lykilmenn til margra ára lögðu skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. Grunnurinn og hryggjarstykkið er þó auðvitað alltaf okkar heimamenn. Við erum stoltir af liðinu okkar og leikmönnum þess, sem allir leggja sig fram fyrir klúbbinn.

Það má segja að fjölmenning sé okkar fag, hjá okkur eru leikmenn frá Noregi, Senegal, Bretlandi og Bandaríkjunum. Frændur okkar frá Noregi eru gríðarlega sterkir leikmenn, miklir íþróttamenn og nýtast hjá Selfoss í þjálfun og vinnu. Síðast en ekki síst láta þeir gott af sér leiða, atvinnumanna hugsunarháttur þeirra skilar sér til okkar leikmanna. Senegalarnir eru sterkir leikmenn og erum við í þróunarstarfi með akademíu í Senegal, þar sem markmiðið er að gera þá að betri fótboltamönnum, kenna þeim ensku og háttvísi að hætti Sunnlendinga. Kvennaleikmennirnir frá Bandaríkjunum skila einnig miklu til okkar, bæði í kennslu hinna yngri og þeirra leikmanna, sem fyrir eru. Allt þetta skilar sér í betra liði.

Hvað gerir góður meistaraflokkur ?
Góður meistaraflokkur er gríðarlega mikilvægur, hann eflir áhuga iðkenda í yngri flokkum og er gott athvarf fyrir okkar efnilegustu menn í framtíðinni. Þeir sjá þá framtíð hjá Selfossi og hafa vilja og metnað til að spila meðal þeirra bestu. Á síðustu árum og jafnvel áratugum höfum við misst alltof mikið af okkar afreksfólki yfir í lið í efri deildum. Við viljum vera á meðal þeirra bestu með okkar afreksfólk. Síðast en ekki síst er það góð auglýsing fyrir samfélagið.

Mætum á völlinn og sýnum stuðning
Til þess að gera Selfoss að góðu liði í efstu deild þurfum við samstöðu á Suðurlandi og hvatningu til leikmanna okkar. Það er ákveðin stemning að mæta á völlinn í dag, fjölskyldan getur mætt tímanlega og hitt fólk og spjallað um leikinn sem er framundan, stuðningsmannaklúbburinn hittist tímanlega og grillar fyrir leiki. Þjálfararnir fara yfir liðsvalið og uppleggið með stuðningsmönnum, þannig að það er heilmikið um að vera fyrir leik og mikil stemning.  Verslunin Krónan tekur virkan þátt með okkur í kvennaboltanum og býður fólki á leikina hjá stelpunum gegn því að verslað sé í Krónunni, þá er um að gera þegar verslað er að biðja um miða á kassanum og þú færð miða á leik.

Það er mikilvægt fyrir okkur Sunnlendinga, íbúa jafnt sem fyrirtæki, að eiga afrekslið í efstu deildum. Sunnlendingar mætum á völlinn og sýnum stuðning, tökum vel á móti leikmönnum liðsins og hvetjum þá áfram. ÁFRAM SELFOSS!!

Selfosskveðja
Sævar Þór Gíslason
Jón Steindór Sveinsson
Hjalti Þorvarðarson