Selfoss í undanúrslit í fyrsta sinn

Selfoss fagnar sigri í bikar
Selfoss fagnar sigri í bikar

Selfoss tryggði sér sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu með frækilegum sigri á ÍBV á laugardag. Er þetta jafnframt í fyrsta sinn í sögu félagsins sem það kemst í undanúrslit bikarkeppninnar.

Selfoss hafði nokkra yfirburði í fyrri hálfleik og skoraði Dagný Brynjarsdóttir eina mark hans á 10. mínútu með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Önnu Maríu Friðgeirsdóttur. ÍBV komu mikið sterkari inn í seinni hálfleik og jöfnuðu á 70. mínútu. Ekki voru skoruð fleiri mörk í venjulegum leiktíma né heldur í framlengingu og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni.

Í vítaspyrnukeppninni var markvörðurinn Alexa Gaul hetja Selfyssinga. Auk þess að skora úr einni spyrnu varði hún tvær af vítaspyrnum ÍBV. Thelma Björk Einarsdóttir, Celeste Bourille og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu einnig fyrir Selfoss í vítaspurnukeppninni.

Afar ítarleg og góð umfjöllun um leikinn er á vef Sunnlenska.is.

---

Alexa var hetja Selfyssinga í leiknum og var ákaft fagnað í leikslok.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl