Selfoss með fínan sigur á Þrótti í 1.deild karla

Selfoss fékk Þrótt heim í kvöld í fyrstu deildinni. Úr varð hin fínasta skemmtun af handbolta. Fyrri hálfleikurinn byrjaði afskaplega rólega þar sem jafn var á flestum tölum. Staðan var jöfn eftir 10 mínútur 6-6. Selfos hafði byrjað leikinn með frekar slakri vörn sem Þróttur átti í litlum vandræðum með. En eftir korters leik þá hafði Selfoss náð upp þessari góðri 5-1 vörn sinni og náðu forskotinu 9-7. Áfram hélt liðið að bæta í og munaði miklu um auðveld hraðaupphlaupsmörk bæði vinstra og hægra megin. Staðan því 13-7 og 10 mínútur til leikhlés. Liðið virkaði mjög grimmt þessar seinustu tíu mínútur og vann þann kafla 6-3 og leiddi því í leikhléi 19-10. Greinilegt að Selfoss var að spila mjög fínan handbolta í fyrri hálfleik.

Selfoss byrjaði síðari hálfleik af miklum krafti og bætti forskotið upp í 11 mörk 22-11 á 35 mínútu. Liðið var að spila frábæra vörn á þessum kafla og áttu auðvelt með að skora. Þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 26-13. Á næstu mínútum slakaði Selfoss liðið mikið á bæði varnarlega og sóknarlega og þess vegna náði Þróttur að halda í við Selfoss liðið. Hinsvegar minkuðu þeir forskot Selfoss ekkert af viti og þegar 50 mínútur voru búnar var staðan 29-16.

Ljósmynd: sunnlenska.is/Guðmundur Karl.

 

Selfoss byrjaði að nota bekkinn töluvert seinustu 10 mínúturnar og vann Þróttur þann kafla 6-7. En þá var Selfoss sigurinn löngu kominn í höfn og mjög góður sigur 35-23.

Liðið virkaði mjög gott í kvöld. Spilaði lengi vel hörku 5-1 vörn þrátt fyrir smá bras og vesen á fyrstu mínútunum. Gaman að sjá Arnar þjálfara skipta liðinu vel inn á og tóku allir leikmenn þátt. Greinilegt að breidd liðsins er að koma ágætlega út. Til dæmis var Örn Þrastarson ekki í hóp í kvöld. Mjög greinilegt að lið eiga í erfiðleikum að skora á góða vörn Selfoss, sem er að virka einstaklega vel með Einar Sverisson eða Einar Pétur fyrir framan. Einnig er sóknarleikurinn sífellt að skána og fær boltinn að fljóta betur. Hinsvegar þarf liðið að fækka mistökunum því að betri lið munu refsa fyrir þau.  Það var líka gleðisjón að sjá Sigurð Má Guðmundsson aftur á vellinum eftir hálfs árs fjarveru. Styrkir hann lið Selfoss gífurlega sérstaklega varnarlega og getur svo leyst Matthías Örn af ef til þarf.

Næsti leikur liðsins er engin smá leikur. Alvöru suðurlandsslagur gegn ÍBV og það í 8-liða úrslitum bikars. Ef það hefur einhvern tíman verið þörf á stuðningi þínum þá er það núna! Allir að mæta á miðvikudaginn 13. febrúar klukkan 19:30 og hvetja strákana inn í undanúrslitin í Höllinni!

Áfram Selfoss!

Tölfræði:

Hörður M 8/12, 5 stoðsendingar, 3 stolnir boltar, 3 tapaðir boltar,  3 fráköst og 7 brotin fríköst

Einar S 7/8, 4 stoðsendingar, 4 stolnir boltar, 3 tapaðir boltar, 2 fráköst og 7 brotin fríköst

Hörður Gunnar 5/7, 3 stoðsendingar 3 tapaðir boltar

Einar P 5/8, 2 stoðsendingar

Andri Már4/5 og 1 frákast

Matthías Örn 3/7, 3 stoðsendingar, 4 varin skot, 2 fráköst og 8 brotin fríköst

Gústaf L 2/2, 2 varin skot og 5 brotin fríköst

Magnús Már 1/1 og 1 frákast

Ómar Vignir 1 stoðsending, 2 fráköst og 5 brotin fríköst

Sigurður Már 0/1 og 1 brotið fríkast

Jóhann G 0/1, 1 tapaður bolti, 1 frákast og 1 brotið fríkast

Gunnar Ingi 1 stoðsending , 2 stolnir boltar

 

Markvarsla:

 

Helgi 13/1 og fékk á sig 13(52%)

Sverrir 5 og fékk á sig 10(30%)