Selfoss Selfossmeistarar!

Selfossmeistarar 2015
Selfossmeistarar 2015

Keppt var um meistaratitil Selfoss í handbolta í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld, saman leiddu hesta sína Umf. Selfoss og Íþróttafélagið Mílan. Bæði þessi lið leika í 1. deild Íslandsmótsins sem einmitt hefst næstu helgi.

Lið Selfoss tók snemma völdin í leiknum og átti Mílan í ákveðnu basli með spræka Selfyssinga án þess þó að hleypa þeim of langt frá sér. Staðan í hálfleik 13-8. Í síðari hálfleik tók aðeins að síga á ógæfuhlið Mílumanna meðan Selfossliðið lék á köflum vel. Það fór svo að Selfoss hafði nokkuð þægilegan 27-12 sigur.

Markahæstir í liði Selfoss:
Teitur Örn Einarsson 7
Elvar Örn Jónsson 5
Árni Geir Hilmarsson 3
Jóhann Erlingsson 3

Markahæstir hjá Mílan:
Sævar Ingi Eiðsson 5
Atli Kristinsson 3

Í spjalli við Stefán Árnason þjálfara Selfoss eftir leik kom fram að hann var nokkuð sáttur við leik liðsins, hann sagðist vera ánægður með varnarleikinn en hafði sömuleiðis á orði að sóknarleikinn þyrfti að laga áður en Íslandsmót hæfist. Auk þess sagðist Stefán vera ánægður með að hafa fengið að taka þátt í þessum leik um Selfossmeistaratitilinn og vildi koma á framfæri þökkum til Mílan fyrir drengilegan leik.

Selfoss spilar sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu nk. föstudag, 18. september, við Stjörnuna, í Garðabæ. Fyrsti heimaleikurinn er síðan ekki fyrr en 2. október þegar Selfoss mætir Þrótti. Mílan á sinn fyrsta heimaleik nk. föstudag þegar þeir mæta Fjölni.

MM
---

Hergeir og Andri Már áttu innilega stund með bikarinn.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson.