Stjörnuleikur Selfyssinga

Handbolti - Hergeir Grímsson
Handbolti - Hergeir Grímsson

Selfyssingar náðu sér í tvö afar mikilvæg stig í Olís-deildinni þegar þeir sigruðu Stjörnuna með einu marki, 24-25 í hágæða spennutrylli í Garðabænum í gær.

Stjarnan leiddi í hálfleik 12-10 og voru sterkari aðilinn stóran hluta seinni hálfleiks. Það var ekki fyrr en tíu mínútur voru eftir að Selfyssingar komust inn í leikinn og höfðu eins marks sigur á æsispennandi lokamínútum. Einar Ólafur Vilmundarson átti flotta innkomu í markið og átti stóran þátt í því að brjóta heimamenn á bak aftur.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Hergeir Grímsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 6, Einar Sverrisson, Elvar Örn Jónsson og Alexander Egan 3 og Guðni Ingvarsson, Sverrir Pálsson og Guðjón Ágústsson 1 mark hver. Einar Ólafur varði 8 skot og Helgi Hlynsson 7 skot í marki Selfoss.

Selfoss hefur nú 22 stig í sjötta sæti deildarinnar, þegar tvær umferðir eru eftir. Fram og Akureyri eru í botnsætunum með 18 og 17 stig, en eiga þrjá leiki eftir, þar af einn leik innbyrðis. Næsti leikur Selfyssinga er á heimavelli gegn Val miðvikudaginn 29. mars kl. 19:30 en lokaumferðin fer fram þriðjudaginn 4. apríl þegar strákarnir okkar sækja FH heim.

---

Hergeir var markahæstur Selfyssinga.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/JÁE