Tap í Grafarvoginum

Sjóli
Sjóli

Meistaraflokkur karla fór stigalaus heim úr Grafarvoginum á föstudaginn þegar þeir töpuðu á móti Fjölni 25-18. Gestgjafarnir náðu forystu strax í upphafi leiks og héldu henni allt til enda. Þeir voru mun grimmari og Selfoss var að elta allan leikinn. Það var eins og baráttuna vantaði í leik okkar manna en þessi lið berjast um þriðja sætið í deildinni sem gefur heimaleikjarétt í umspili um laust sæti í efstu deild. Núna hafa Selfoss og Fjölnir mæst þrisvar á þessu tímabili en fyrsta leikinn vann Selfoss með sjö mörkum, annar leikurinn endaði í jafntefli og núna þurfti Selfoss að játa sig sigrað með sjö marka mun. Þrátt fyrir þetta tap þá situr Selfoss sem fastast í þriðja sætinu með mun betri markatölu og á auk þess einn leik til góða en Fjölnir hefur spilað einum leik meira en Selfoss.

Þessi leikur var sá fyrsti í þriðju og síðustu umferð Íslandsmótsins, nóg af stigum eftir í pottinum og ekki nokkur vafi hjá okkar mönnum að þeir ætla sér stóra hluti nú í vor.

Markahæstir í liði Selfoss voru Hörður Másson og Sverrir Pálsson báðir með fjögur mörk. Daníel Arnar skoraði þrjú, Hergeir Grímsson, Elvar Örn, Egidijus, Andri Már, Matthías Örn, Jóhann Erlingsson og Guðjón Ágústsson skoruðu eitt mark hver. Sebastian varði 13 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson varði fimm skot.

Næsti leikur Selfoss er föstudaginn 20. febrúar klukkan átta á móti Hömrunum frá Akureyri. Leikurinn fer fram í íþróttahúsi Vallaskóla og hvetjum við fólk til að mæta og styðja strákana.

Viðtal við Gunnar þjálfara eftir leik má sjá hér.

Mynd: Hörður Másson, skoraði fjögur mörk á móti Fjölni.