Þurfti ekki að hugsa mig lengi um

Það var látið rosalega vel af störfum þínum hjá KSÍ og þú náðir besta árangri með u-17 ára landslið sem náðst hefur. Hvað fékk þig til að hætta með landsliðið og koma á Selfoss?
Þetta var ekki auðveld ákvörðun og ég kveð starfið hjá u-17 með ákveðnum söknuði. Ég hef átt fjögur frábær ár með landsliðinu, haft frábært samstarfsfólk í kringum mig sem hefur verið gaman að vinna með. Það eru auðvitað forréttindi að fá að starfa með efnilegustu knattspyrnumönnum landsins og koma að því að móta landsliðsmenn framtíðarinnar. En allt hefur sinn tíma og ég taldi að nú væri rétti tíminn til að breyta til og snúa aftur í liðsþjálfunina. Þegar Selfoss hafði samband við mig þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um. Uppbygging-in á Selfossi  hefur verið afar jákvæð á undanförnum árum og umgjörðin í kringum liðið er til fyrirmyndar.   

Hvar fékkst þú og hver er þín þjálfaramenntun?
Ég lærði íþrótttafræði í Háskólanum í Hamborg og útskrifaðist þaðan 1998 með mastersgráðu í íþróttafræði.  Utan þessa hefðbundna íþróttanáms tók ég sem sérsvið íþróttafjölmiðlun og sálfræði sem aukafag. Með náminu spilaði ég fótbolta og þjálfaði, sem dugði til að framfleyta sér. Eftir að ég kom heim kláraði ég öll þjálfarastigin hjá KSÍ og er núna með UEFA-A  þjálfaragráðu.

Er spenntur fyrir að taka UEFA pro gráðuna, en það verður að koma í ljós hvort eða hvenær það verður. Þú hefur líka verið að kenna á efsta stigi KSÍ?  
Já, ég er búin að kenna á síðustu þremur námskeiðum og haft mjög gaman af því. Þjálfaramenntunin hér á Íslandi er orðin mjög góð og er í raun einn af lykilþáttunum í þeim framförum sem orðið hafa í knattspyrnunni hér heima ásamt uppbyggingunni á góðri aðstöðu. Á námskeiðunum hefur maður einnig kynnst mörgum þjálfurum og myndað góð tengsl. Þess utan lærir maður alltaf heilmikið sjálfur,  bæði við að kenna og fylgjast með öðrum kenna.   

Nú hefur þú endurnýjað samning við tvo uppalda reynslubolta sem spiluðu ekki síðasta sumar. Hversu mikilvægt er að hafa þá í hópnum? 
Það skiptir mjög okkur miklu máli að fá Jóa og Einar Ottó aftur inn í hópinn. Fyrir utan að vera góðir leikmenn þá skiptir reynsla þeirra miklu máli því það vantar ákveðið aldursbil inn í hópinn eins og hann er í dag. Ég tel það líka afar mikilvægt að hafa öfluga stráka í liðinu sem eru uppaldir hjá félaginu, það skapar ákveðna festu.     

Sérðu fyrir þér að geta notað einhverja yngri leikmenn úr 2. flokk í vetrarleikjunum eða jafnvel næsta sumar? 
Já, það er alveg ljóst að ég mun nota töluvert af leikmönnum 2. flokks í vetur og lít ég á það sem mikilvægan þátt í að byggja þá upp og undirbúa fyrir framtíðina. Það er svo auðvitað alltaf undir strákunum sjálfum komið hvernig þeir nýta þau tækifæri sem þeir fá. Einhverjir verða vonandi tilbúnir til að taka skrefið inn í meistaraflokkinn en svo þurfa aðrir kannski meiri tíma. 

Hvernig setur þú upp prógrammið í vetur? Verða æfingaleikir fyrir áramót? 
Við hófum æfingar 3. nóvember og áherslan fram að jólum verður fyrst og fremst á  tæknivinnuna með smá taktísku ívafi. Við spilum 4 æfingaleiki fram að áramótum, þar sem ég fæ tækifæri til að meta hópinn. Eftir áramótin leggjum við svo meiri áherslu á leikfræðina og að undirbúa liðið líkamlega fyrir tímabilið. Við tökum þátt í fótbolta.net mótinu í janúar og svo kemur Deildarbikarinn í kjölfarið um miðjan febrúar, þannig að það verður nóg af leikjum.  

Áttu von á að sjá framfarir hjá yngri strákunum?
Ég á von á að sjá framfarir hjá öllum leikmönnum liðsins. Svo lengi sem strákarnir eru tilbúnir að hlusta, læra og leggja sig fram á æfingum þá eiga þeir að taka framförum.   

Er búið að setja þér einhver markmið fyrir næsta sumar?
Nei. Það er ekki tímabært að setja nein markmið fyrr en nær dregur móti og við getum metið raunverulegan styrk okkar. 

Nú hefur áhugi samfélagsins á Selfossliðinu aðeins sveiflast upp og niður. Hversu mikilvægt er að hafa Selfyssinga og aðra Sunnlendinga með sér í verkefninu?
Það er afar eðlilegt að áhuginn á liðinu sveiflist í samræmi við gengi liðsins. En fyrst og fremst er mikilvægt að horfa á hlutina í réttu ljósi. Það eru rúm tvö ár síðan Selfoss spilaði í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni og eðlilega fylgdi því aukin áhugi og athygli. En það reynir alltaf á í mótlætinu og mér fannst Selfyssingar standa vel við bakið á liðinu í fyrra þegar á móti blés.  Ég held að fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir því hversu miklu máli það skiptir liðið að hafa þennan stuðning og ekki að ósekju er oft talað um stuðningsmennina sem 12 manninn. Það þýðir einfaldlega það að öflugur stuðningur getur tryggt okkur nokkur dýrmæt stig á tímabilinu, þannig að mikilvægi stuðningsmanna liðsins er ótvíræður. Ég vona því að Selfyssingar og aðrir sunnlendingar taki þátt í baráttunni með okkur á næsta tímabili af heilum hug.