Tvö silfur og eitt brons á MÍ aðalhluta í frjálsum íþróttum

Bryndís Embla með frábæra frammistöðu í spjótkasti
Bryndís Embla með frábæra frammistöðu í spjótkasti

Meistaramót Íslands í flokki fullorðinna fór fram um liðna helgi á nýjum frjálsíþróttavelli ÍR-inga í Mjóddinni í Rvk. Lið HSK Selfoss átti þar 14 keppendur og var liðið skipað ungum og efnilegum keppendum í bland við reynslubolta. Okkar fólki gekk heilt yfir vel og var uppskeran tvö silfurverðlaun og ein bronsverðlaun ásamt HSK metum og persónulegum bætingum.

Bryndís Embla Einarsdóttir Selfossi gerði sér lítið fyrir og kastaði kvennaspjótinu (600gr) 41,20 m og vann til  silfurverðlauna. Frábær árangur hjá henni og HSK met í flokkum 14-22 ára og einungis 3 m frá 25 ára gömlu Íslandsmeti í flokki 14 ára. Reynsluboltinn Örn Davíðsson Selfossi varð einnig annar í spjótkasti karla með 64,73 m. Í þrístökki kvenna áttum við fjóra keppendur sem allar stóð fyrir sínu. Anna Metta Óskarsdóttir Selfossi sem var yngsti keppandi þrístökkskeppninnar náði þar lengst. Hún varð í þriðja  sæti á góðri bætingu með10,97 m sem er HSK met í 13 ára flokki. Fleiri voru verðlaunin ekki en að lokum má geta þess að Eydís Arna Birgisdóttir Selfossi og Helga Fjóla Erlendsdóttir Garpi komust í úrslit í langstökki og Eydís Arna í sex manna úrslit í 200m hlaupi. Aðrir keppendur HSK Selfoss stóðu sig með ágætum. Nánari úrslit má finna á www.thor.fri.is