Upphitun fyrir FH - Selfoss í N1- deild kvenna

Selfoss- FH
Selfoss- FH

Á laugardaginn 26. janúar klukkan 13:30 leikur Selfoss gegn FH í Kaplakrika í N1-deild kvenna. Það verður á brattan að sækja en FH vann fyrri leikinn 21-28 á Selfossi eftir að staðan var 11-14 í hálfleik. Athygli vekur að þetta verður 4 útileikur Selfoss í röð í deildinni.

FH-liðið er eins og flest liðin í þessari deild byggt upp á ungum stelpum og er verið að byggja til framtíðar í Kaplakrika. Liðið hefur verið gífurlega sterkt á heimavelli í vetur, en þær hafa unnið 5 af 6 leikjum á heimavelli. Eina tapið kom gegn Fram í fyrsta leik í deildinni. FH er í 6 sæti í deildinni með 14 stig. Markahæsti leikmaður FH-liðsins í vetur er Ásdís Sigurðardóttir með 66 mörk í 12 leikjum. Næst henni kemur Elín Anna Baldursdóttir með 47 mörk í 12 leikjum. Þriðja markahæst er Steinunn Snorradóttir með 37 mörk í 11 leikjum. Í markinu stendur svo landsliðsmarkvörðurinn Dröfn Haraldsdóttir og varmarkvörður liðsins er Saga Sif Gísladóttir.

Gengi FH á tímabilinu: T-S-S-S-S-T-S-T-S-T-T-S

Selfoss liðið er straðráðið í að halda áfram á beinu brautinni eftir frábæran sigur á Haukum í seinasta leik. Áhugavert er að sjá að liðinu hefur gengið betur á útivelli með 2 sigra í 6 leikjum gegn 1 sigri í 6 leikjum á heimavelli. Það er því vonandi að liðið haldi áfram að sækja sigra á útivelli. Eftir sigur í seinasta leik er Selfoss liðið ennþá í 9 sæti, en einungis 2 stigum frá Haukum í 8 sætinu. Carmen Palmariu hefur farið fyrir Selfoss liðinu í markaskorun með 54 mörk í 11 leikjum. En það var mikill happafengur að fá hana fyrir tímabilið. Næst kemur Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir með 51 mörk í 8 leikjum. Þriðja markahæst er svo Kristrún Steinþórsdóttir. Liðið þarf svo á góðum varnarleik á að halda frá Tinnu Soffíu Traustadóttir, en hún hefur einnig skorað 31 mörk af línunni í 12 leikjum. Markverðir Selfoss liðsins þurfa svo að hafa góðan dag, en þær Áslaug Ýr Bragadóttir og Ásdís Ingvarsdóttir standa vaktina.

Gengi Selfoss á tímabilinu: S-T-T-T-T-S-T-T-T-T-T-S

Heimasíðan vonar að Selfyssingar fjölmenni á leikinn og helst í lopapeysum enda oft á tíðum kalt á handboltaleikjum, sérstaklega í Kaplakrika.