Upphitun fyrir Selfoss - ÍBV 8-liða úrslit Símabikarnum

Á miðvikudaginn13. febrúar klukkan 19:30 verður suðurlandsslagur af bestu gerð þegar Selfoss fær ÍBV í heimsókn í 8-liða úrslitum Símabikar karla. Sjaldan hefur jafn mikið verið undir þegar þessi lið mætast eins og núna. Sæti í undanúrslitum bikarsins og heimsókn í Höllina og bein útsending í sjónvarpinu. Seinast þegar liðin mættust í deildinni þá vann ÍBV öruggan sigur 26-32 eftir að staðan var 11-16 í hálfleik. Það er því augljóst að Selfoss á harm að hefna og von á gífurlegri skemmtun, blóð, svita og tár.

ÍBV liðið hefur sýnt gífurlega góðan stíganda í 1.deildinni og sitja þeir á toppnum. En liðið hefur ekki tapað í 11 leikjum í röð og þarf af tíu sigrar og eitt jafntefli. Það býður því Selfoss gífurlega erfitt verkefni á miðvikudagskvöldið. Selfos þarf að hafa góðar gætur á hægri skyttu ÍBV Nemanja Malovic sem hefur leikið frábærlega í 1.deildinni með 89 mörk í 13 leikjum. Einnig hafa þeir Andri Heimir Friðriksson og Grétar Þór Eyþórsson verið duglegir að skora, en báðir eru með 65 mörk í 13 leikjum. Það má þó ekki gleyma Guðna Ingvarssyni fyrrverandi leikmanni Selfoss. Hann er virkilega duglegur leikmaður og góður varnarmaður. Þó lítið hafi farið fyrir honum í markaskorunni með 23 mörk í 14 leikjum. Það eru svo þeir Kolbeinn Aron Ingibjargarson og Haukur Jónsson sem eru markverðir liðsins. Þetta ÍBV lið er gífurlega vel mannað og virðast þeir stefna hraðbyr á sæt í N1-deildinni á næsta ári.

Selfoss hafa verið að spila góðan varnarleik undanfarið sem hefur skilað stigunum í hús. Núna þarf liðið hinsvegar einnig að ná upp góðum sóknarleik til að vinna gegn gífurlega sterkri ÍBV vörn. Hver einasti leikmaður liðsins þarf að leggja sitt á vogarskálina til að knýja fram sigur á miðvikudaginn. Því miður mun Gústaf Lilliendahl ekki leika með liðinu, hann hefur þegar leikið með Fylki í bikarnum og er því ólöglegur með Selfoss. Einar Sverrisson heldur áfram að fara fyrir Selfoss liðinu og hefur skorað 88 mörk í 13 leikjum. Hann og  Nemanja því í hörku keppni um markahæsta leikmann fyrstu deildarinnar. Matthías Örn Halldórsson þarf að eiga góðan leik gegn ÍBV ef liðið ætlar að fá eitthvað úr leiknum. Hann hefur skorað 59 mörk í 13 leikjum og farið fyrir liðinu í vörninni. Hörður Másson hefur sífellt verið að koma betur inn í liðið bæði sóknarlega og varnarlega. Hann hefur skorað 14 mörk í 6 leikjum og þar af 8 í síðasta leik. Í markinu standa svo að venju Helgi Hlynsson og Sverrir Andrésson. Í svona leikjum getur markvarslan skipt gífurlegu máli, eins og sást í leiknum gegn Val þegar Helgi varði 31 skot. Það er komin hörkusamkeppni í flestum stöðum í liðinu og því þurfa menn að vera á tánum ef þeir ætla að halda sér í hóp.

Þetta verður fyrsti af tveimur leikjum í röð gegn ÍBV, en á laugardaginn næsta 16. febrúar mun liðið leikja í Vestmanneyjum gegn ÍBV í 1.deildinni. Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt að Selfyssingar og nær sveitungar kíki á völlinn á miðvikudaginn og styðji strákana dyggum dáðum. Einnig verða sem flestir iðkendur handknattleiksdeildarinnar að láta sjá sig. Enda ekki á hverjum degi sem Selfoss leikur jafn mikilvægan leik.

Áfram Selfoss!