Viðurkenningar á aðalfundi Ungmennafélagsins

Verðlaunahafar Aðalfundur 2013
Verðlaunahafar Aðalfundur 2013

Á aðalfundi Umf. Selfoss, sem haldinn var fimmtudaginn 18. apríl, voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur og störf fyrir hönd Ungmennafélagsins.

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson var útnefndur íþróttakarl Selfoss árið 2012 en hann náði framúrskarandi árangri með liði Selfoss á seinasta keppnistímabili og var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi deildarinnar í lok tímabilsins. Hann var valinn í A-landslið Íslands og spilaði sinn fyrsta leik gegn Andorra í nóvember. Hann spilar nú með Víkingi frá Stafangri í Noregi.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir fimleikakona og leikmaður Selfoss í handknattleik var útnefnd íþróttakona ársins 2012. Hún var hluti af stúlknaliði Íslands sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum auk þess að ná frábærum árangri með fimleikaliði Selfoss. Þá var hún lykilmaður í liði Selfyssinga sem náði góðum árangri á sínu fyrsta tímabili í N1 deildinni í handknattleik á seinasta tímabili. Hanna var jafnframt kjörinn íþróttamaður HSK árið 2012.

Þórir Haraldsson hlaut Björns Blöndal bikarinn sem árlega er veittur þeim einstaklingi innan eða utan félagsins sem hefur unnið félaginu vel. Þórir hefur árum saman unnið óeigingjörn störf í þágu Umf. Selfoss bæði sem formaður félagsins og foreldri ásamt því að hafa undanfarin ár stýrt undirbúningsnefnd fyrir Landsmótin á Selfossi.

Fimleikadeild Selfoss hlaut UMFÍ bikarinn sem veittur er þeirri deild sem sýnir gott og mikið félagslegt starf innan Ungmennafélagsins. Fimleikadeildin hefur náð frábærum árangri á mótum bæði hér heima og erlendis auk þess sem mikil fjölgun hefur orðið á iðkendum og starf deildarinnar er á allan hátt öflugt.

Fyrir utan venjuleg aðalfundarstörf var undirritaður samningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Ungmennafélagsins um rekstur Selfossvallar. Guðmundur Kr. Jónsson stýrði fundinum líkt og undanfarin ár og steig ekki feilspor í því frekar en venjulega. Kristín Bára Gunnarsdóttir var endurkjörin formaður félagsins og framkvæmdastjórnin var endurkjörin að öllu leyti nema Hallur Halldórsson kom inn sem gjaldkeri í stað Jóhannesar Óla Kjartanssonar sem sagði sig úr stjórninni nýverið. Framkvæmdastjórn Umf. Selfoss skipa því Kristín Bára Gunnarsdóttir, formaður, Sveinn Jónsson, varaformaður, Hallur Halldórsson, gjaldkeri, Viktor S. Pálsson, ritari og Hróðný Hanna Hauksdóttir, meðstjórnandi. Nýr framkvæmdastjóri félagsins var kynntur á fundinum en það er Gissur Jónsson en hann hefur störf núna með vorinu.

Til máls tóku á fundinum Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar, Þórir Haraldsson, félagi í Umf. Selfoss, Hafsteinn Þorvaldsson, heiðursfélagi Umf. Selfoss og Guðríður Adengard, formaður HSK. Þau fjölluðu um ýmis málefni tengd félaginu en það mátti heyra á þeim öllum að bjart væri framundan.

---

Þórir, Hrafnhildur Hanna, Böðvar Þorsteinsson faðir Jóns Daða og Þóra formaður fimleikadeildarinnar.
Mynd: Bragi Bjarnason.