4. flokkur tapaði fyrir Haukum

Selfyssingar fóru slæma ferð á Ásvelli í dag í 4. flokki karla. Bæði lið töpuðu eftir slaka byrjun í báðum leikjum.

Í A-liðum mættu Selfyssingar ekki til leiks fyrr en eftir tæplega 20 mínútna leik en þá voru Haukar komnir 13-5 yfir. Selfoss lagaði stöðuna aðeins seinustu mínútur fyrri hálfleiks í 16-10. Í síðari hálfleik byrjuðu okkar menn af miklum krafti og minnkuðu muninn niður í 17-14 á aðeins sex mínútna kafla. Næstu mínútur eftir það var munurinn á bilinu 3-5 mörk. Selfyssingar hefðu hæglega getað komist nær heimamönnum en voru sjálfum sér verstir. Í stöðunni 22-18 höfðu Haukar náð þremur fráköstum á skömmum tíma eftir misheppnuð skot í sókn. Skiluðu öll þrjú fráköstin mörkum í kjölfarið, en erfitt er að brúa sex marka forskot í seinni hálfleik þegar maður tekur ekki fráköst eftir að andstæðningum mistekst að skora í sóknum sínum. Svona geta smáatriðin skipt miklu máli. Lokatölur urðu svo 27-23 sigur Hauka.

Hörmuleg byrjun og slakur varnarleikur í fyrri hálfleik varð strákunum að falli í leiknum. Það er athyglisverð tölfræði að í fyrri hálfleikjunum í seinustu tveimur leikjum (ÍBV og Haukar) hefur liðið náð samanlagt 19 brotnum fríköstum og fengið á sig 31 mark. Það er greinilegt að liðið þarf að taka þennan þátt í gegn og byrja að spila vörn strax frá byrjun en ekki bara eftir hálfleik. 

B-liðið lenti 12-4 undir en komst þá loks í gang. Strákarnir kláruðu fyrri hálfleikinn vel og minnkuðu forskotið í 14-9 fyrir hlé. Í upphafi síðari hálfleiks hélt Selfoss áfram að minnka forskotið og fór munurinn niður í eitt mark. Náðu Haukar þá góðri rispu og komust fimm mörkum yfir, 21-16. Selfoss gafst ekki upp og í stöðunni 22-20 fengu þeir tækifæri á að minnka muninn enn meira en það tókst ekki. Haukur sigruðu að lokum 23-20.

Eins og með A-liðið er rosalega erfitt að ætla að fá mikið út úr leik þar sem liðið lendir strax átta mörkum undir. Spilamennskan eftir 12-4 var mögnuð hjá liðinu og mjög jákvætt að sjá strákana spila sinn lang besta varnarleik í langan tíma. Þar varð hugarfarsbreyting sem vonandi heldur áfram í komandi leikjum. Í sókninni fór svo liðið að leysa vörn Haukamanna sem þeir náðu engan veginn framan af leik. Liðið bara byrjaði alltof seint.

Næsta verkefni 4. flokks er spennandi eða úrslitaleikur í bikar gegn FH í Laugardalshöllinni 26. febrúrar kl. 12:00.