97 strákarnir komnir í undanúrslit

Selfoss merki
Selfoss merki

4. flokkur eldri (1997) lék um helgina gegn Stjörnunni á heimavelli í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Ágætlega var mætt á leikinn sem var hin mesta skemmtun fyrir áhorfendur. Selfyssingar voru öflugri í leiknum og sigruðu 34-26 eftir að hafa unnið báða hálfleikina í leiknum 17-13.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar.  Sóknin gekk mjög vel hjá Selfyssingum frá byrjun og stýrði liðið algjörlega leiknum. Eftir 4-4 stöðu er Selfoss alltaf að bæta jafnt og þétt við muninn. Komnir í 10-7 eftir 13 mínútur, 13-9 eftir 19 mínútur og mest með fimm marka forystu 15-10 þegar skammt var til hálfleiks. Stjörnumenn minnkuðu muninn þó um eitt mark og 17-13 í hálfleik. Í síðari hálfleik var þannig séð engin hætta á að Stjarnan myndi ná að búa til jafnan leik. Gestirnir reyndu marga hluti varnarlega og tóku allt frá einum og upp í fjóra leikmenn úr umferð. Ekkert af því virkaði og sigldi Selfoss 34-26 sigri heim.

Gríðarlega skemmtilegur andi var í Selfyssingum sem voru hæst ánægðir að úrslitakeppnin væri loks hafin. Liðsheildin var sterk og margir að skila góðum leik. Sér í lagi var liðið sterkt sóknarlega að þessu sinni en þar var hraðinn mikill í leikkerfum og öllum aðgerðum. Þessi taktur sem þarf að vera var til staðar og réðu gestirnir hreinlega ekkert við þá.

Selfyssingar því komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta FH. Leikurinn fer fram á Selfossi í  vikunni sem er að hefjast. Gaman væri að sjá fólk fjölmenna á þann leik og hjálpa strákunum alla leið í úrslitaleikinn á Íslandsmótinu. Leiktíminn verður birtur á síðunni um leið og hann liggur fyrir.

Áfram Selfoss