Aukagreiðsla til félaga vegna góðrar fjárhagsafkomu

HSK - Guðríður Aadnegard
HSK - Guðríður Aadnegard

Stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) hefur ákveðið að greiða aðildarfélögum sínum og sérráðum sérstaka aukagreiðslu í ljósi góðrar fjárhagsafkomu HSK á síðasta ári og vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu vegna COVID-19. Þetta var ákveðið á fundi stjórnar í seinustu viku.

Upphæðin er 2,2 milljónir króna, en að óbreyttu hefði hagnaður sambandsins á síðasta ári verið rétt um 2,2 milljónir. Ástæða mun betri fjárhagsafkomu HSK en áætlun gerði ráð fyrir, er að stærstum hluta vegna mun meiri tekna af Lottóinu.

Ungmennafélag Selfoss fær hæstu greiðsluna, rúmlega 530 þúsund krónur, Íþróttafélagið Hamar tæplega 284 þúsund krónur og Íþróttafélagið Dímon og Ungmennafélagið Hekla fá rúmlega 104 þúsund krónur. Aðrar greiðslur eru undir 100 þúsund krónum. Forsendur skiptingar eru þær sömu og við útdeilingu á lottói árið 2020.

„Við erum mjög ánægð að geta greitt arðinn út til aðildarfélaganna. Þetta sýnir að íþróttahreyfingin er vel rekin og gott að nýta hann til að styðja við félögin,“ segir Guðríður Aadnegard, formaður HSK.

Frétt af vef HSK og UMFÍ

---

Guðríður Aadnegard, formaður HSK.
Ljósmynd: UMFÍ