Bryndís Embla með Íslandsmet í spjótkasti

Bryndís Embla er stórefnilegur spjótkastari
Bryndís Embla er stórefnilegur spjótkastari

1.sumarmót ÍR var haldið þann 21.maí síðastliðinn.  Fjórir keppendur frjálsíþróttadeildar Selfoss tóku þátt og stóðu sig vel.  Hæst bar Íslandsmet Bryndísar Emblu Einarsdóttur í spjótkasti í flokki 16-17 ára.  Bryndís Embla kastaði spjótinu (500 gr) 46,32m og bætti Íslandsmet Arndísar Diljá Óskarsdóttur frá árinu 2021 um 39cm.  Hún bætti einnig eigið HSK met í flokknum en fyrra met hennar var 44,75m.  Bryndís Embla er á yngra ári í flokknum og keppnistímabilið nýbyrjað þannig að gera má ráð fyrir að hún muni kasta enn lengra á næstu vikum.

Kristján Kári Ólafsson keppti í þremur kastgreinum og bætti sig í þeim öllum.  Hann kastaði karlasleggjunni 35,80m sem er nýtt HSK met í flokki 16 -17 ára en fyrra metið var 32,29 í eigu Benjamíns Guðnasonar.  Kristján Kári fékk silfurverðlaun fyrir kastið en faðir hans, Ólafur Guðmundsson, náði 3.sæti með 30,28m löngu kasti. Kristján Kári keppti í kúluvarpi í flokki 16-17 ára þar sem hann kastaði 13,53m og varð í öðru sæti, sama sæti og hann fékk fyrir að kasta kringlunni 33,69m í flokki 16-17 ára.  Að lokum þá kastaði Daníel Breki Elvarsson karlaspjótinu 49,17m og sigraði í karlaflokki.

Kristján Kári Ólafsson hefur byrjað keppnistímabilið af miklum krafti og þegar sett tvö HSK met í sleggjukasti